Flytja úrval af tónleikum ME - Myndir
Tónlistarfélag Menntaskólans á Egilsstöðum (TME) heldur í kvöld tónleika með úrvali af lögum sem æfð hafa verið upp fyrir og flutt á tónleikum sem félagið hefur staðið fyrir undanfarið eitt og hálft ár. Sérlega öflugt tónlistarlíf hefur verið í skólanum þennan tíma.„Það kom inn hópur tónlistaráhugafólks í skólann með áhuga á íslenskri tónlist, einkum rokki. Þess vegna hefur rokkið verið áberandi. Við héldum tónleika með íslensku rokki í fyrrahaust í Sláturhúsinu og síðan almenna rokktónleika í vor hér í Valaskjálf.
Okkur fannst gaman í fyrra og hópurinn náði vel saman þannig að við ákváðum að halda áfram,“ sagði Dögun Óðinsdóttir, formaður TME í viðtali við Austurgluggann í tengslum við tónleikana sem haldnir voru með íslenskum rokklögum. Meðfylgjandi myndir voru teknar við það tilefni.
Hljómsveitin er einnig mest skipuð núverandi ME-ingum, þótt þar séu einnig fengnir með útskrifaðir nemar þegar vantar á sérstök hljóðfæri. „Ég held að sá fjöldi sem kemur í félagið skýrist af uppeldinu. Við öll í stjórninni komum úr tónlistarfjölskyldum.“
Auk þeirra tónleika sem Dögun telur upp má nefna að á þessum tíma hafa félagar í TME haldið utan um söngkeppni skólans, Barkann. Þá hafa einstakir nemendur bæði sett upp tónleika og gefið út lög í lokaverkefnum sínum við skólann.
Á tónleikunum í kvöld, sem hefjast í Valaskjálf klukkan 20:00, verða meðal annars flutt lög eftir Led Zeppelin, Ego, Muse, Trúbrot og Grafík.
Byggt á lengri umfjöllun sem áður birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.