Fyllir á svanga Seyðfirðinga

Veitingastaðurinn „Filling station“ eða „Áfyllingarstöðin“ opnaði á Seyðisfirði í byrjun sumars. Nafnið vísar til þess að staðurinn er gömul bensínstöð. Morgunmatur og gott kaffi er þar í forgrunni en á ýmsu hefur gengið í aðdraganda opnunarinnar.

„Við töldum vera rými á markaðinum fyrir stað sem byði upp á morgunverð og gott kaffi. Það eru ekki margir staðir hérlendis sem bjóða upp á morgunverð. Hingað koma margir ferðamenn sem ekki eru endilega vanir norræna morgunverðinum, brauði með osti, segir Jonathan Moto Bisagni, sem fer fyrir staðnum í Austurglugga vikunnar.

Filling Station er afsprengi vinnu hans með Austurlands Food Coop sem flutt hefur inn grænmeti og ávexti beint til Seyðisfjarðar í rúm þrjú ár. Áherslur hans í grænmetinu sjást líka í seðlinum á Filling Station þar sem avocado samlokan hefur slegið í gegn.

Jonathan fékk fyrst inni í gömlu bensínstöðinni til að geta tekið á móti grænmetinu úr Norrænu og flokkað það fyrir neytendur. Um leið fóru af stað hugmyndirnar að opna þar síðar veitingastað. Á ýmsu hefur þó gengið. Í desember 2020 féllu stórar skriður sem komu niður í kringum bensínstöðina.

„Ég kom hérna inn daginn eftir fyrri skriðuna. Það rann á í gegnum húsið. Samt var hér allt krökkt af iðnaðarmönnum að græja, eins og ekkert hefði í skorist, þeir ætluðu sér að ljúka verkinu fyrir jól. Ég sagði þeim að fara heim, hér væri hættulegt að vera.“

Tveimur dögum síðar kom önnur skriða sem hreif með sér Breiðablik, gamalt timburhús sem stóð ofan við veginn frá bensínstöðinni. „Um morguninn var Breiðablik komið á bílastæðið hjá okkur. Leðjan úr skriðunni náði 1,5 metra upp eftir veggjum hússins, upp á gluggana. Eldhúsið var fullt af drullu. Þetta var algjörlega bilað,“ segir Jonathan.


Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.