Skip to main content

Fyrsta skrefið að halda tónleika og bjóða öllum sem ég þekkti

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. júl 2022 16:10Uppfært 26. júl 2022 16:12

Breska tónlistarkonan Katey Brooks í kvöld fyrstu tónleikana af þremur á Austurlandi næstu daga þegar hún kemur fram í Beituskúrnum í Neskaupstað. Hún segist njóta þess að spila tónleika á framandi slóðum og tengjast fólki sem sækir þá.


„Ég hef spilað víða um heim. Mér finnst gaman að öðlast spennandi reynslu eða hitta skemmtilegt fólk sem ég get síðan sagt frá eða samið um síðar. Það getur verið í stórri tónleikahöll eða heimahúsi í smábæ

Ég hugsa að eftirminnilegustu tónleikarnir mínir hafi verið í Betlehem í Palestínu á friðarhátíð sem þar var haldið. Það var algjörlega einstakt, svo mikil hlýja frá fólkinu,“ segir Katey.

Heldur sig við Austurland

Hún er búsett í Manchester á Englandi og flaug þaðan í gær og lenti eystra. Hún spilar í Beituskúrnum í kvöld, Bláu kirkjunni á Seyðisfirði annað kvöld og Tehúsinu á Egilsstöðum á fimmtudag. Síðan heldur hún aftur út og eru þetta því einu þrír tónleikar hennar hérlendis. Ekki er algengt að einu tónleikar listamanna sem koma til Íslands séu eystra.

„Ég held ég geri aldrei neitt á hefðbundinn hátt. Okkur var boðið að taka þátt í tónleikaröð Bláu kirkjunnar. Mér virtist það yndislegur staður sem hentaði tónlistinni minni vel.

Ég hef ekki spilað áður á Íslandi en við ákváðum að halda okkur bara hér eystra og koma frekar aftur síðar og spila á fleiri stöðum.“

Aðspurð segist hún ekki klár á hvernig hún hafi vakið athygli skipuleggjenda Bláu kirkjunnar. „Ég býst við að þeir hafi heyrt tónlistina mína. Síðan er einfalt að hafa samband við mig í gegnum heimasíðuna mína. Ef mér líst vel á vettvanginn þá mæti ég.“

Smalaði vinunum á tónleika

Tónlistartímaritið Billboard hefur lýst tónlist Katey sem sem „dimmri og sálarfullri.“ Hún bætir við að hún noti tónlistina til að túlka tilfinningar sínar og því sé hljómurinn tilfinningaríkur, hrár og sannur.

Katey kveðst hafa sungið og laðast að tónlistinni frá í barnæsku en um tvítugt ákveðið að leggja hana af alvöru. „Ég átti vin í vinsælli hljómsveit sem ég spurði hvernig ég geti gert meira úr tónlistinni. Hann sagði mér að halda tónleika og bjóða öllum sem ég þekkti. Ég gerði það, leigði mér sennilega töluvert stærri sal en flestir myndu gera í byrjun og þrýsti síðan á alla vini mína að koma.“

Efnisskráin næstu þrjá daga byggir mest á frumsömdu efni þótt þar megi einnig búast við að heyra lög annarra þekktra listamanna en Katey hefur meðal annars gert sínar útgáfur af lögum með Phil Collins, Miley Cyrus og Kendrick Lamar. „Því ég nota tónlistina svo mikið til að sjá mig gæti ég aldrei bara sungið lög annarra. Mér finnst samt gaman að syngja lögin þeirra ef ég finn sterka tengingu.“

Hún kveðst spennt fyrir tónleikunum eystra. „Ég engar væntingar, vonast bara til að ná að tengjast fólkinu, það njóti þess sem það heyrir og eigi kvöldstund sem fylli því það gleði. Það er jú það sem tónlistin gerir.“