Gamall keppinautur genginn í raðir SúEllen

Jóhann Ingvason, hljómborðsleikari Skriðjöklanna, hefur gengið til liðs við norðfirsku hljómsveitina SúEllen og mun koma fram með henni á tvennum tónleikum í næsta mánuði. Sveitin verður þar fullmönnuð í fyrsta sinn í langan tíma.

Jóhann tekur stöðu Ingvars Lundberg, sem lést eftir veikindi árið 2022. Fyrir andlát sitt tók Ingvar það loforð að félögum sínum að þeir myndu halda áfram og hafa gaman.

Jóhann er þekktastur fyrir Skriðjöklaferilinn, en SúEllen og Skriðjöklarnir háðu mikla keppni í hljómsveitarkeppnum Atlavíkurhátíðanna um miðjan níunda áratuginn. Hann hefur þó spilað með fleiri sveitum, svo sem Sixties, Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar og CCR bandinu. Þá er hann í karlakórnum Fóstbræðrum.

Jóhann mun spila með SúEllen á tvennum tónleikum í mars, á Græna hattinum þann 14. mars og í Bæjarbíói í Hafnarfirði þann 22. Mars. Í tilkynningu segir að þetta séu fyrstu heilu tónleikar sveitarinnar í sex ár. Steinar Gunnarsson, bassaleikari, verður með á hans fyrstu tónleikum í tvö ár en hann hefur glímt við veikindi.

Nýtt efni verður frumflutt á tónleikunum en sveitin hyggur á útgáfu nýrra laga í vor.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar