Hákon Hansson hlýtur Landstólpann

Hákon Hansson, dýralæknir og fyrrverandi oddviti á Breiðdalsvík, hlaut í gær Landstólpann, samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar.

Viðurkenningin hefur verið veitt árlega frá 2011 einstaklingi, fyrirtæki eða hópi, fyrir viðvarandi starf eða framtak sem vakið hefur jákvæða athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags.

Hákon er fæddur á Höfn í Hornafirði árið 1950 en flutti fimm ára ásamt fjölskyldu sinn í Kópavog. Hann kláraði stúdentspróf frá MH en fór síðan til Þýskalands í dýralæknanám.

Að námi loknu vann Hákon hjá dýralæknaþjónustu í Norður-Þýskalandi en flutti svo austur á land og settist að á Breiðdalsvík árið 1977 þegar hann tók við nýstofnuðu embætti héraðsdýralæknis á suðurfjörðum Austfjarða. Hann sinnti embættinu þar til það var lagt niður árið 2011 og var eftir það sjálfstætt starfandi dýralæknir þar til hann hætti formlega um síðustu áramót eftir 44 ára feril.

Í umsögn segir að Hákon hafi alla tíð verið ákaflega vel liðinn sem dýralæknir og reynst traustur vinur margra þeirra ungu dýralækna sem komið hafa austur síðustu ár og áratugi. Bændur hafa lýst honum sem einstaklega óeigingjörnum, ósérhlífnum, og hjálpsömum dýralækni sem sýndi mikinn skilning þegar á reyndi. Ekki skipti máli hvort menn hefðu samband við Hákon að nóttu til eða degi í sauðburði, ávallt hafi hann verið til þjónustu reiðubúinn.

Hákon hefur alla tíð látið sig atvinnu- og samfélagsmál í Breiðdal varða. Hann var um tíma stjórnarformaður Hraðfrystihúss Breiðdælinga á árunum 1983-1987 og formaður stjórnar kaupfélagsins á árunum 1978 til 1985. Hann er einn af forvígismönnum Breiðdalsseturs, situr þar í stjórn og hefur verið formaður um árabil. Hann vann ötullega að því að borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands yrði flutt til Breiðdalsvíkur árið 2017 og var ein helsta driffjöðrin þegar vinna hófst við að koma upp Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík sem nú er orðið að veruleika.

Hákon fékk flest atkvæði til sveitarstjórnar í kosningunum 2014 og tók við embætti oddvita Breiðdalshrepps til 2018. Það segir talsvert um stöðu hans í samfélaginu, en þetta voru að mörgu leyti mjög erfið ár í sögu Breiðdalshrepps. Breiðdalshreppur var eitt fyrsta byggðarlagið til að taka þátt í verkefnum Byggðastofnunar brothættar byggðir.

Hákon kom þar fram af festu sem leiðtogi heimamanna. Hann hefur jafnan verið vakinn og sofinn yfir hagsmunum síns byggðarlags og ekki hikað við að beita sér þegar þess hefur þurft fyrir velferð þess og hagsmunum íbúa. „Það er samdóma álit allra sem rætt er við að Hákon er ein meginstoðin í samfélaginu í og við Breiðdal. Menn nota orð eins og „máttarstólpi“ eða þess vegna „aðalgaurinn“ til að lýsa honum en eitt er víst að hann tæki ekki undir slíkt sjálfur,“ eins og segir í umsögninni.

„Það er von Byggðastofnunar að viðurkenning sem þessi gefi jákvæða mynd af landsbyggðunum og af starfi stofnunarinnar. Viðurkenningin er hvatning, hugmyndin að baki henni er að efla skapandi hugsun og bjartsýni. Óbilandi bjartsýni og jákvæðni er smitandi og mættum við öll taka það okkur til fyrirmyndar. Það er að því einstaklega vel við hæfi að sæma Hákon Hansson þessari nafnbót.“

Verðlaunagrip ársins hannaði listakonan Kata Sümegi sem rekur listasmiðju á Borgarfirði eystri.

Frá vinstri: Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, Aðalsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Byggðastofnunar og Hákon Hansson. Mynd: Byggðastofnun

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.