Helgin: Hinseginhátíð líka á Steinasafninu
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. ágú 2025 14:08 • Uppfært 08. ágú 2025 14:08
Tvær hinseginhátíðir verða haldnar á Austurlandi í ár, auk gleðigöngu á Seyðisfirði verður hinseginleikanum fagnað á Steinasafninu á Stöðvarfirði. Listasýningar, tónleikar, landsmót sagnaþulna og skógardagur í Vallanesi eru meðal annarra viðburða helgarinnar.
Það eru þær Kimi Tyler og Eva Jörgensen sem standa fyrir hinseginhátíð Steinasafnsins á morgun, en þær vinna þar báðar. Þær héldu litla hátíð þar í fyrra, þar sem þær voru á vakt og komust því hvorki til Reykjavíkur né Seyðisfjarðar.
Þær söfnuðu saman því sem hönd á festi til að regnbogalita Steinasafnið. Í ár hafa þær undirbúið meira. Steinasafnið verður skreytt, boðið upp á regnbogaveitingar í kaffihúsinu og hægt að koma til að lita steina.
Þær segja að hátíðinni hafi verið vel tekið í fyrra. „Við hengdum fánana þannig upp að þeir snéru að veginum. Stöðfirðingar fjölmenntu en erlendu ferðamennirnir tóku líka vel í þetta. Það var gaman að finna að nokkrir þeirra tilheyrðu hinsegin samfélaginu og ákváðu að koma við og sjá hvað væri að gerast,“ segir Eva.
Að komast ekki í gleðigönguna í Reykjavík varð líka kveikjan að gleðigöngunni á Seyðisfirði sem gengin hefur verið í tíu ár. Hún verður á sínum stað á morgun. Farið verður af stað úr miðbænum klukkan 14:00.
Eurovisionkeppandi á Tehúsinu
En það eru ýmsir fleiri viðburðir í gangi á Austurlandi um helgina. Í dag klukkan 17:00 opnar í Þórsmörk í Neskaupstað sýningu Sögu Unn, listakonu sem um þessar mundir býr á Stöðvarfirði. Sýningin ber heitið „Að kassa hring“ og eru verkin tileinkuð bandaríska leikstjóranum David Lynch. Þau eru unnin úr matvælum og öðrum hversdagslegum hlutum en innblásturinn er persónuleg reynsla af sköpunarkrafti.
Á Tehúsinu í kvöld klukkan 20:30 spilar portúgalski gítarleikarinn Novemente Vago ásamt söngkonunni Meta_ en hún komst í úrslit forkeppni Evrópusöngvakeppninnar þar í landi árið 2019. Hann hefur í sumar unnið í ferðaþjónustu á Eiðum.
Íslandsmót sagnaþula á Fáskrúðsfirði
„Mannaþefur í helli mínum“ – Íslandsmót sagnaþulna á Íslandi verður haldið á Fáskrúðsfirði á morgun. Meðal þeirra sem þar koma fram er Sigurborg Kr. Hannesdóttir með örnámskeið í að setja saman og segja stuttar sögur af formæðrum. Magnea Einarsdóttir og Þuríður Guðmundsdóttir kvæðakonur munu kenna stemmur við kvæði austfirskra skálda. Um kvöldið verður sagnavaka þar sem sagnaþulir stíga á stokk.
Á sunnudag frá klukkan 13-17 verður skógargleði Móður Jarðar í Vallanesi. Bændur þar efna til grænmetismarkaðar í bland við dagskrá tónlistar-, handverks- og listafólks.