Helgin: „Maður reynir að sjálfsögðu alltaf að vinna“

„Það er bara einn sjens í ár, við verðum að vinna eða þá við dettum úr leik,“ segir Birgir Jónsson, sem skiptar eitt af þremur sætum Fjarðabyggðaliðsins sem mætir Akranesi í fyrstu umferð Útsvarsins í beinni útsendingu á RÚV í kvöld klukkan 19:45.


Útsvarið, spurningakeppni sveitarfélaganna, hófst síðastliðinn föstudag þegar Grindavík lagði Ölvus, sem sigruðu keppnina í fyrra. Er þetta tólfta árið í röð sem Útsvar er á dagskrá en að þessu sinni verður keppnin snarpari en áður og lýkur með úrslitum í janúar. Þátttakendur í vetur eru lið frá þeim sveitarfélögum sem komist hafa í úrslit síðustu ár, eða oftast komist nálægt því. Umsjónarmenn eru sem fyrr, Guðrún Dís Emilsdóttir og Sólmundur Hólm.

Í kvöld er lið Fjarðabyggðar skipað þeim Birgi, Heiðu Björgu Liljudóttur og Kjartani Braga Valgeirssyni sem kemur í stað Hákonar Ásgrímssonar, sem staddur er erlendis.

Fjarðabyggð hefur tvívegis sigrað keppnina, en í fyrra datt liðið út í annarri umferð eftir tap á móti Fljótsdalshéraði.

„Segja má að þetta sé meistaradeildin í ár en maður reynir alltaf að vinna. Ég veit að RÚV leitaðist eftir því að fá þá sem skipuðu gömlu sigurliðin til þess að keppa í ár og hafði Grindavíkurliðið sem vann síðasta laugardag ekki keppt saman síðan liðið vann fyrir sex árum. Slíkt væri erfitt hjá okkur þar sem Jón Svanur Jóhannsson, sem nú er spurningahöfundur keppninnar, var í sigurliði Fjarðabyggðar árið 2014, einmitt ásamt Kjartani Braga sem hleypur í skarðið fyrir Hákon í kvöld. Lilja var einnig í sigurliðinu árið 2017 en sjálfur hef ég ekki unnið nokkurn skapaðan hlut og verð helst að bæta úr því í ár,“ segir Birgir, sem vill hvetja þá Austfirðinga sem búsettir eru í Reykjavík að mæta í sjónvarpssal í kvöld og styðja liðið.

„Já, við viljum endilega sjá sem allra flesta, það var ekki nógu góð mæting í fyrra. Það er alltaf gott að hafa áhorfendur sem klappa þegar við á,“ segir Birgir og hlær.

Andófsgjörningar eftirhrunsins
Fleiri Austfirðingar verða í sviðsljósinu í Reykjavík um helgina, en Héraðsbúinn Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, mun koma fram á ráðstefnunni „Hrunið, þið munið. Karlmennska og kapítalismi í íslenskum samtímabókmenntum“, sem haldin verður í Háskóla Íslands á morgun. Þar mun Sigríður Lára flytja erindið „Andófsgjörningar eftirhrunsins“, í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, stofu 229, klukkan 15:00.

Tæknidagur fjölskyldunnar
Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskólanum í Neskaupstað á morgun, laugardag. Þetta er í sjötta sinn sem Austurbrú og Verkmenntaskóli Austurlands taka höndum saman og skipuleggja Tæknidaginn. Markmiðið er sem fyrr að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda í nærumhverfinu og þannig varpa ljósi á fjölbreytt störf á þessum vettvangi sem unnin eru á svæðinu. Ítarlega dagskrá má sjá hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar