Þingað um framtíð Seyðisfjarðar á morgun
Boðað hefur verið til málþings um þróun atvinnutækifæra í menningu og ferðaþjónustu á Seyðisfirði. Velt verður upp spurningunni um hvernig virkja megi hæfileika fólksins og menningararfinn til að bæta afkomu íbúanna. Málþingið fer fram í Félagsheimilinu Herðubreið, bíósal, á morgun, föstudag, kl. 13:00.
Unnið hefur verið að stefnumótun í menningar- og ferðamálum á Seyðisfirði undir heitinu Aldamótabærinn Seyðisfjörður um nokkurt skeið. Um verkefnið var myndaður klasi sem hlaut styrk frá Vaxtasamningi Austurlands. Klasinn réði til sín landslagsarkitekt með sérfræðiþekkingu á markaðsmálum og í alþjóðlegum viðskiptum. Það var víða komið við í leitinni að „réttu“ stefnunni með menningararfinn í forgrunni. Margar góðar hugmyndir voru viðraðar, sumar þeirra lentu beint í glatkistunni, aðrar rötuðu í skýrslu sem verður kynnt á málþinginu.
Á málþinginu verður einnig komið inn á móttöku skemmtiferðaskipa. Er um að ræða brot úr námskeiðinu sem Útflutningsráð og samtökin Cruise Iceland stóðu fyrir í vetur og var nefnt „Komdu í land.“
Í lok málþingsins um klukkan 15:30 verður ferðaþjónustuaðilum í bænum boðið í lautaferð út að Dvergasteini. Dvergasteinn stendur í flæðarmálinu neðan við samnefnda forna kirkjujörð. Þjóðsagan um Dvergastein og ferðalag hans yfir fjörðinn, er landsþekkt. Steinninn er sérkennilegur að lögun og stingur í stúf við umhverfið.