Skip to main content
„Ég vildi alls ekki verða kennari, mamma var kennari, systir mín líka, svo að ég ákvað að ég vildi læra hótelstjórnun.“ Mynd: Stefán Örn Sigurðsson

„Kennarinn er í beinni útsendingu allan tímann“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. nóv 2025 19:13Uppfært 14. nóv 2025 19:18

Ingibjörg Ingadóttir hefur verið kennari mestan hluta fullorðinsáranna. Hún stefndi ekki á starfið, lenti frekar í því fyrir tilviljun. Í byrjun þessa árs flutti hún frá Reykjavík og austur á Fáskrúðsfjörð til að starfa sem enskukennari og aðstoðarskólastjóri við grunnskólann.

Ingibjörg stefndi þó ekki á kennarastarfið. Hún var fyrst ráðin sem kennari upp úr tvítugu, þegar hún flutti til Svíþjóðar með þáverandi kærasta sínum. Þau bjuggu í íslensku innflytjendasamfélagi þar sem Svíar buðu upp á móðurmálskennslu.

„Ég fór á vit ævintýranna en á allra fyrstu vikunum sá ég auglýsingu eftir móðurmálskennara í íslensku. Ég hugsaði: „Bíðum við, þetta er eitthvað fyrir mig. Ég get þetta.“ Þetta var fyrsta reynsla mín af kennslu.“

Hún lærði sænskuna fljótt þar sem hún kunni dönsku, en hugur hennar stefndi annað. „Ég flutti utan en ég vildi alls ekki verða kennari, mamma var kennari, systir mín líka, svo að ég ákvað að ég vildi læra hótelstjórnun. Ég vildi ferðast, skoða heiminn og búa einhvers staðar í framandi landi, jafnvel í Suður-Kyrrahafi, lifa draumalífi og vinna á fínu hóteli,“ segir hún hlæjandi.

Grískur draumaprins og hótelskóli í Aþenu

Leið hennar lá fyrst til Bretlands, þangað flutti hún sem ung móðir með litla stúlku. Faðir stúlkunnar var látinn. Námslánakerfið á Íslandi gerði henni kleift að læra við Surrey háskóla. Hún bjó hjá fjölskyldu í Guildford því hún fékk ekki inni á heimavist skólans. „Ég fékk að heyra að það húsnæði væri einungis fyrir hjón!“

Í Bretlandi hitti hún óvænt „draumaprinsinn,“ gríska manninn sinn. Eftir fjögur ár í Bretlandi hafði hann lokið námi og vildi hann komast aftur til Grikklands. Eftir sumarfrí í Aþenu fundu þau svissneskan hótelskóla í borginni.

„Ég hafði samband við skólastjórnendur og var sagt ég gæti vissulega haldið áfram að læra þar, ef ég vildi vera svo væn að kenna nemendum á fyrsta ári, grískum strákum sem voru að stíga sín fyrstu skref í eldamennsku. Það var eftirminnilegt, þeir kunnu ekki einu sinni að taka utan af lauk, hvað þá að skera hann.“

Á vorkvöldi á Fáskrúðsfirði. Mynd: Aðsend

Lærði grísku í ferðum á markaðinn

Fyrir Ingibjörgu var þetta stórt skref. Hún segist í gríni hafa orðið hálfgerður Miðjarðarhafsbúi. „Ég lærði grískuna af fjölskyldunni, tengdaföður mínum og dóttur minni sem var orðinn þriggja og hálfs árs. Yfirleitt kynnti hún mig svona í búðum: „Þetta er mamma mín og hún talar ekki grísku.“ Þetta vakti alltaf kátínu.“

Ingibjörg minnist tengdafjölskyldunnar með hlýhug. Tengdafaðir hennar, gamall hershöfðingi, fór með henni á markaðinn og kenndi henni grísku. En menningarheimarnir rákust á. „Hann sagði hluti eins og: „Þetta gengur ekki með stuttbuxurnar, þú ert gift kona núna.“ Ég reyndi að finna leið fram hjá því.“

Í fyrstu vildi hann ekki lána mér bílinn sinn og sagði við son sinn: „Ég veit ekki hvort hún geti keyrt almennilega.“ Ég var mjög móðguð,“ segir Ingibjörg hlæjandi.

Þótt lífið væri gefandi fann hún eftir fimm ára dvöl að hjónabandið var að renna út í sandinn. „Menningarmunurinn sagði til sín og draumaprinsinn var að breytast í frosk.“

Hún fann sterka þörf til að snúa aftur til Íslands með börnin þrjú, þar sem öryggisnetið var. „Mér fannst eins og ég gæti heyrt braka í mínum eigin beinum og hugsaði: „Það er ekki smart að snúa heim með hjartasár, einstæð með þrjú börn.“ Ég þurfti öryggisnetið sem ég hafði á Íslandi.“

Í skíðaferð með Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar í Oddsskarði. Mynd: Aðsend

Alþýðuskólinn var menningarmiðstöð

Ingibjörg bætti síðar sig uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands. Síðan hún kom aftur til Íslands hefur hún að mestu starfað við kennslu og á því byrjaði hún í Alþýðuskólanum á Eiðum 1993-1994. 

„Skólinn var menningarmiðstöð og heimavistarskóli. Mamma kenndi íslensku og við leigðum saman hús. Ég var að taka mín fyrstu skref í nýju samfélagi með börnunum mínum um leið og ég var að átta mig á hlutunum.“ Hún tók síðar starfi ferðamálafulltrúa á Héraði og Borgarfirði.

Nær til nemenda í gegnum tónlist og fótbolta

Ingibjörg hefur kennt öllum aldurshópum, allt frá leikskólabörnum upp í fullorðna. Hún er söngkona og það hefur komið sér vel. Í Borgarnesi kenndi hún eldri konum ensku í gegnum Bítlalögin. „Þær voru dálítið feimnar í fyrstu. En þegar við byrjuðum að syngja lög eins og Yesterday eða I Give Her All My Love og Girl, girl - þessi fallegu og þekktu lög, fóru þær að opna sig og taka undir.“ 

Fyrir um fjórum árum tók hún áskorun og kenndi fimm ára börnum við Ísaksskóla. „Ég velti þessu fyrir mér og sagði síðan: „Allt í lagi, sjáum hvort ég geti ráðið við þetta. Þetta er áskorun, ný áskorun.“ Þú þarft að skipta um kennsluaðferðir með yngri börn, vera sögumaður, fara í hlutverk, syngja mikið, klappa og kenna takt og rím, leika ræningja, úlfa og mýs, lesa og að hafa gaman af þessu öllu. Börn eru mjög eftirtektarsöm og snögg að hugsa og þú ert í beinni útsendingu allan tímann!“

Framhaldsskóli er allt annar heimur. „Í framhaldsskóla þarftu ekki að aga nemendur, það er nokkurn veginn búið að því. Þú þarft samt að ganga úr skugga um að þú sért við stjórnvölinn í bekknum og að þau treysti því sem þú ert að gera, annars lendir þú í vandræðum. Eldri nemendur eru kröfuharðir.“

Það þarf að sýna nemendum að þér sé ekki sama um þau og þú þarft stöðugt að hvetja þau, taka eftir öllum jákvæðu atriðunum og hvernig þú getur hjálpað þeim að blómstra. Ég kenni þeim dálítið um heiminn í gegnum alnetið, við ræðum um tónlist, það sem er á döfinni og aðeins um fótbolta, að sjálfsögðu. Síðan getum við haldið áfram með eitthvað alvarlegra.“

Mér leist vel á það sem ég sá hér á Fáskrúðsfirði og lét slag standa.“ Mynd: Stefán Örn Sigurðsson

Fékk símtal um að koma austur og kenna

Það var svo í lok síðasta árs sem tækifærið gafst á að koma austur á Fáskrúðsfjörð. „Ég fékk óvænt símtal í byrjun desember. Ég kom í tvo sólarhringa, hitti fólk og ræddi við það. Ég hef unnið í mörgum skólum þannig að ég hef mínar skoðanir á kennslu og skólum. Mér leist vel á það sem ég sá hér á Fáskrúðsfirði og lét slag standa.“

Hún féllst á að vera til vors. Þá kom nýr skólastjóri (Jóhanna Guðnadóttir) sem bauð henni að vera áfram. „Okkar samstarf hefur gengið vel, hér er mjög gott starfsfólk og ég kann vel við mig.“

Ingibjörg kom austur með sambýlismanni sínum, Stefáni Erni Sigurðssyni. „Blessunarlega var hann tilbúinn til að koma með mér, við ákváðum að gera þetta saman,“ segir hún. Stefán Örn starfar sem stuðningsfulltrúi við skólann. Hann á að baki landsleiki í knattspyrnu, lærði í Ameríku og starfaði þar lengi sem ljósmyndari. „Áhugamál hans, íþróttir og skák, koma einnig að góðum notum. Krökkunum þykir þetta áhugavert og þau hafa tekið honum vel.“

Lengi útgáfa viðtalsins birtist áður í Austurglugganum

„Ég hef unnið í mörgum skólum þannig að ég hef mínar skoðanir á kennslu og skólum.“ Mynd: Stefán Örn Sigurðsson