Kolfallinn fyrir Austfjörðum eftir hjólreiðatúr til styrktar Parkinsons-samtökunum
Hjólreiðakappinn Einar Örn Thorlacius sór þess heit þegar hann hjólaði hringinn um Ísland fyrir fáeinum árum, en fór þá fjallveginn yfir Öxi, að koma fljótt aftur og hjóla Austfirðina. Það ferðalag hóf hann 11. ágúst síðastliðinn og notaði tækifærið til að safna áheitum fyrir Parkinsons-samtökin en sá erfiði sjúkdómur herjar nú á systur hans. Einar endaði að mestu frábært ferðalag sitt á Egilsstöðum um helgina.
Að segja að Einar Örn, sem starfar sem lögfræðingur hjá Matvælastofnun, hafi verið himinlifandi með fegurð Austfjarða er líkast til vægt til orða tekið. Sjálfur á hann vart orð yfir dýrðinni í fjörðunum og segir að orðið kolfallinn eigi vel við í spjalli við Austurfrétt. Hann fékk þoku og rigningu allra fyrsta daginn en naut eftir það að mestu glampandi sólar og blíðu.
Erfið byrjun
Þeir 103 kílómetrar sem eru á milli Hafnar í Hornafirði og Djúpavogs var lengsta dagleið Einars og ekki bætti úr skák að það var ausandi rigning þegar hann lagði af stað þá leiðina eftir að hafa tekið saman rennblautt tjald sitt og búnað snemma um morguninn. Fleiri vandamál komu þó fljótlega upp:
„Það var ekki gaman að pakka saman rennblautu tjaldi í ausandi rigningu en það var logn og hlýtt. Eftir að hafa drukkið einn kaffibolla og étið tvö heilhveitihorn á bensínstöð lagði ég í hann. Endalaus rigning og þoka en eftir tíu til fimmtán mínútna hjólreiðar áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt að kaupa nesti! 103 km framundan og engin búð eða veitingasala á leiðinni. En það var of seint að snúa við svo áfram hélt ég en þegar komið var í Álftafjörðinn þá kláraðist tankurinn alfarið og ég gat bara ekki hugsað mér að halda áfram að hjóla. Aldrei átti ég von á því á minni ævi að banka upp á hjá ókunnugu fólki og sníkja mat en í örvæntingu greip ég til þess ráðs þó reyndar ég hefði boðið greiðslu fyrir matinn. Á bænum Blábjörg tóku hjónin vel á móti mér og gáfu mér sitt lítið af hverju. Það reyndist hin skemmtilegasta heimsókn því ég starfa sem lögfræðingur dýravelferðar þannig að það var um margt að tala við þau hjón þó þau stundi ekki neinn búskap sjálf lengur.“
Magafylli skipti sköpum
Eftir magafylli í góðum félagsskap að Blábjörgum hafði Einar orku til að halda ferð sinni áfram og náði til Djúpavogs ekki löngu síðar.
„Þetta var sérstök byrjun en síðan þetta gerðist þá lagaðist veðrið mikið og allt gengið mjög vel að meðtöldu veðrinu því það nánast var glampandi sól það sem eftir lifði ferðarinnar. Ég hjólaði firðina alla og endaði í Neskaupstað áður en ég snéri til baka og hélt til Egilsstaða og þaðan svo áfram til Akureyrar þar sem ég er nú. Ég held ég hafi bara fengið stóra vinninginn í happadrættinu hvað varðar stórkostlegt veður. Hver fjörðurinn á fætur öðrum svo fallegur í þessu frábæra veðri og eini mínusinn að ég missti allt samband við umheiminn hitabylgjudaginn um helgina. Þá steinhætti síminn minn að virka í hitabeltinu á Egilsstöðum og mig grunar að það hafi verið miklum hita um að kenna þó ekkert skuli fullyrt. En aldeilis frábær og eftirminnileg ferð engu að síður.“
Hjólaði líka fyrir systur sína
Fyrir utan djúpan almennan áhuga á hjólreiðum og að skoða land sitt hafði Einar Örn enn frekari hvöt til fararinnar því hann hjólaði líka til styrktar Parkinsons-samtökunum en önnur systir Einars greindist fyrir ekki löngu síðan með þann erfiða sjúkdóm.
„Ég alltaf haft gaman af því að hjóla. Fyrir tveimur árum fór ég Vestfjarðahringinn og fyrir þremur árum Hringveginn. Þetta veitir mér mikla ánægju en ég átti alltaf Austfirðina eftir og nú er önnur systir mín komin með þennan Parkisons-sjúkdóm svo mér datt í hug að slá tvær flugur í einu höggi og safna jafnframt áheitum á ferð minni um Austfirðina. Eftir því sem ég kemst næst hefur söfnunin gengið vel og reyndar betur en menn gerðu ráð fyrir.“
Einar Örn á Eskifirði í blankalogni á ferð sinni en hann á vart orð yfir hve vel hann naut ferðar sinnar um firði Austurlands. Mynd Einar Örn Thorlacius