Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis þjónustar Austfirðinga

Þjónusta Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis stendur nú Austfirðingum til boða en félagið tók um síðustu áramót að sér þjónustu við krabbameinsgreinda og aðstandendur á umdæmissvæði Sjúkrahússins á Akureyri. Félagið leggur um þessar mundir sérstaka áherslu á stuðning við fjölskyldur.

„Þjónusta okkar stendur nú til boða fyrir svæðið allt frá Blönduósi til Djúpavogs, sem er nýjung,“ segir Regína Ólafsdóttir, sálfræðingur hjá félaginu, en hún er uppalin á Djúpavogi.

Félagið var stofnað árið 1952 en hefur verið með starfsmann á sínum snærum frá 1991. Í október síðastliðnum urðu þeir fjórir um sama leyti og félagið opnaði nýtt húsnæði í Glerárgötu. Hjá félaginu starfa nú bæði sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur og geta Austfirðingar nýtt sér þjónustu þeirra, sér að kostnaðarlausu.

Meðal annars veita þeir aðstoð við að finna hjálpartæki frá Eirbergi, sem og viðtöl fyrir fjölskyldur, pör og einstaklinga, ýmsa fræðslu og námskeið.

Um þessar mundur er sérstök áhersla lögð á aðstoð við fjölskyldur og af því tilefni stendur félagið fyrir málþingi um börn sem eru aðstandendur krabbameinsgreindra miðvikudaginn 24. apríl.

„Þau hafa stundum orðið útundan. Við hittum fullorðna sem lýsa þeim áhrifum sem það hafði á þau sem börn að foreldri þeirra fékk krabbamein eða lést. Við heyrum að þeim hefði mátt sinna betur.

Við vitum að þá sem standa í kringum barnið, hvort sem það eru aðrir fullorðnir, úr skóla eða tómstundum, langar til að fá meiri ráð um hvernig hægt er að styðja betur við barnið. Við heyrum þrjár reynslusögur, meðal annars sögu manns sem var ellefu ára gamall er móðir hans lést úr krabbameini.“

Nánari upplýsingar um félagið má finna á www.kaon.is og Facebook-síðu þess.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar