Kvenfélagið Vaka gaf leikskólabörnum á Djúpavogi veglega gjöf
Kvenfélagið Vaka á Djúpavogi er duglegt við að styrkja starf bæði leik- og grunnskólanna í bænum. Á dögunum gaf Kvenfélagið leikskólabörnum skemmtilegt leikefni sem hægt er að nota á fjölbreyttan hátt og stuðlar að skapandi hugsun.
Kvenfélagið hélt bingó um vorið og gáfu leikskólanum ágóðann af því til kaupa á leikefni. “Það tók langan tíma að fá leikefnið í hendurnar en börnunum finnst þetta æðislegt og eru búin að prófa þetta allt,” segir Þórdís Sigurðardóttir, deildarstjóri leikskólans á Djúpavogi.
Í pakkanum voru mjúkir svampkubbar af allskonar stærðum og gerðum sem hægt er að leika sér með og byggja úr. Leikskólabörnin fengu líka tvö sett af MODU kubbum sem hafa endalausa möguleika og eru tilvaldir fyrir opinn leik og skapandi hugsun. Krakkarnir geta leyft ímyndunaraflinu að njóta sín þar sem hægt er að setja saman allskonar útfærslur með pinnum og hjólum sem fylgja með. Að endingu er það svo segulkubbarnir þar sem hægt er að setja saman á fjölbreyttan hátt. Eitt settið er kúlubraut en hitt settið eru segulkubbar þar sem hægt er að byggja allskonar stóra og smáa hluti.
Þórdís segir leikskólann mjög þakklátan kvenfélagskonum fyrir gjöfina sem mun nýtast vel í opnu og skapandi starfi með börnunum. “Allt leikefnið gefur börnunum mikla möguleika til að hanna, skapa og búa til hluti.”
Mynd: Þórdís Sigurðardóttur