Kynnir Austfirðinga fyrir íbúðaskiptum
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. feb 2023 06:00 • Uppfært 08. feb 2023 06:01
Snæfríður Ingadóttir, fjölmiðlakona og ferðalangur, verður í næstu viku með námskeið ætlað Austfirðingum sem hafa áhuga á að nýta sér íbúðaskipti. Það er sérstaklega haldið í tilefni af fyrirhuguðu flugi Condor milli Frankfurt og Egilsstaða næsta sumar.
Snæfríður hefur ferðast mikið með fjölskyldu sinni undanfarinn áratug með íbúðaskiptum. Hún segir að nú séu möguleikar því Evrópubúar séu að skipuleggja sumarfríin sín.
„Ég sé í fljótu bragði að á stærstu íbúðaskiptasíðu heims eru eru 3258 þýsk heimili skráð, þar af mörg með Ísland á óskalistanum sínum.
En með því að fljúga til Frankfurt þá opnast í raun öll Evrópa því það er svo góð tenging um alla Evrópu frá Frankfurt. Yfirleitt er frekar auðvelt að fá skipti í Frakklandi og á Spáni en þar eru íbúðaskipti mjög þekkt og mikið notuð af heimamönnum,” segir Snæfríður.
Sjálf þekkir hún Frankfurt ágætlega þar sem hún var au-pair þegar hún var 18 ára. „Minnisstæðast frá þessu ári mínu í borginni eru flóamarkaðirnir, sem haldnir eru um helgar og eru alveg frábærir, sem og eplavínið.”
Betri nýting á stærstu fjárfestingunni
Hún segir ýmsa kosti við íbúðaskiptin en bætir við að þau séu ekki fyrir alla, þar sem maður þarf að vera tilbúinn að lána heimili sitt til að fá annað lánað í staðinn. Skiptin þurfa þó alls ekki að fara fram á sama tíma.
„Það munar auðvitað mjög miklu að þurfa ekki að greiða fyrir gistingu en ferðalagið verður líka allt öðruvísi þegar ferðast er með íbúðaskiptum. Bæði kynnist maður landinu allt öðruvísi með því að dvelja inn á alvöru heimili í stað hótels og þá fær maður líka oft svo skemmtileg ráð frá heimamönnum varðandi hluti sem gaman er að smakka og skoða.
Þá leyfir maður sér oft meira þegar ekki þarf að greiða fyrir gistinguna, fer meira út að borða eða í fleiri skemmtigarða, þannig að ferðalagið verður á margan hátt skemmtilegra.
Það er hægt að gera ýmislegt sem hjálpar manni til að taka fyrsta skrefið og komast yfir óttann. Í grunninn eru góð samskipti á milli skiptiaðila fyrir ferðalagið lykillinn.
Persónulega finnst mér alveg galið að fólk sé ekki að nýta stærstu fjárfestingu lífsins, sem hjá flestum er íbúðarhúsnæðið,betur. Í stað þess að láta húsnæðið standa tómt á meðan verið er á ferðalagi er hægt að leyfa einhverjum að dvelja þar sem vökvar blómin, sér jafnvel um köttinn og þú færð húsnæði á móti, jafnvel reiðhjól líka eða bíl.”
Námskeiðið verður haldið að kvöldi 15. febrúar á vegum Austurbrúar.