Skip to main content

Langað að verða rokkstjarna frá sex ára aldri

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. júl 2022 10:50Uppfært 22. júl 2022 10:51

Hljómsveitin Dopamine Machine hyggur á útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu í haust. Forsprakki sveitarinnar er Ívar Andri Bjarnason frá Egilsstöðum sem samdi fyrstu lögin fyrir sveitina með vini sínum í skapandi sumarstörfum hjá Fljótsdalshéraði. Hann segir föður sinn hafa alið sig upp á rokkinu.


„Mig hefur langað til að verða rokkstjarna síðan ég var sex ára. Ég vildi verða eins og Bruce Dickinson, lærði Iron Maiden lög og söng fyrir framan bekkinn,“ segir Ívar Andri í viðtali í Austurglugga vikunnar.

Hann segir að faðir hans, Bjarni Þór Haraldsson, hafi haldið rokkinu stíft að honum. „Pabbi kenndi mér inn á rokkið. Ég átti iPod sem hann var alltaf að setja tónlist á, til dæmis Iron Maiden, Metallicu og Dio. Hann mataði mig eins og hann gat. Hann reyndi líka með systur mínar en sama hvað hann reyndi þá enduðu þær í poppinu.“

Grunnurinn að Dopamine Machine var lagður í Skapandi sumarstörfum hjá Fljótsdalshéraði sumarið 2019. Margt hefur gerst síðan þá en fyrsta breiðskífan er handan við hornið. „Hún kemur út í haust. Hún hefur gengið vel en hægt því við gerum allt sjálfir, tökum upp og hljóðblöndum. Upptökum er lokið og við erum að ljúka við hljóðblöndunina.“

Hann segir erfitt að lýsa tónlist sveitarinnar. Hann nefnir orðið „fönkpopp“ en bætir svo við: „Það er engin ein stefna ríkjandi en það er poppbræðingur í þessu öllu.“

Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.