Ályktun Fjarðabyggðar um fiskveiðistjórnunarkerfið

,,Núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur fært samfélagi og sjávarútvegi á Íslandi margvíslegan ávinning og leitt til umbóta í greininni. Sjávarútvegurinn er samkeppnisfær á alþjóðlegum mörkuðum og aðstæður í greininni eru fyrirsjáanlegri, starfsöryggi mun meira og störf betur launuð en fyrir daga þess. Fjarðabyggð hefur byggst upp með öflugum sjávarútvegi og þar eru  rekin sterk sjávarútvegsfyrirtæki, sem m.a. hafa aflað þjóðinni veiðireynslu á nýjum tegundum eins og kolmunna og norsk-íslenskri síld. Fyrirtækin hafa lagað sig að því umhverfi sem þeim var búið með núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, þróað vinnslueiningar í landi og aðlagað skipastól sinn að þeim heimildum sem þau hafa úr að spila,“ segir í ályktun sem bæjarráð Fjarðabyggðar sendi frá sér í dag.

fjaragbyggarlg.jpg

 

 

,,Mikilvægt er að varpa ekki fyrir róða þeim árangri sem náðst hefur með gildandi stjórnkerfi fiskveiða. Það er hlutverk stjórnvalda að hlúa að starfsumhverfi greinarinnar m.a. með því að gera fjármálakerfið hæft til að standa við bakið á atvinnuvegum þjóðarinnar.

 

Það er einnig hlutverk stjórnvalda að sníða af kerfinu annmarka  og stuðla að því að sátt náist um það. Við það þurfa stjórnvöld að gæta fulls samráðs við hagsmunaðila. Sátt verður ekki náð með umbyltingu eins og þeirri sem boðuð er með fyrningarleið.  Áform stjórnvalda um fyrningarleið valda óvissu um starfsgrundvöll sjávarútvegsins til framtíðar og leggst bæjarráð Fjarðabyggðar því eindregið gegn þeim. Í Fjarðabyggð kemur þessi óvissa til viðbótar aflabresti í loðnu og sýkingu í síldarstofni.

 

Umbætur í stjórnkerfi fiskveiða þurfa að vera vel ígrundaðar og bæjarráð Fjarðabyggðar varar við aðgerðum sem veikt geta starfsgrundvöll sjávarútvegsins og stefnt búsetu í óvissu.“

 

 

Samþykkt samhljóða í bæjarráði Fjarðabyggðar 19.5.2009.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar