„Mamma þarf að djamma“

Eyrún Björg Guðmundsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Neistaflugs. Hún er í yfirheyrslu vikunnar.


Eyrún Björg vinnur að hátíðinni ásamt móður sinni Guðrúnu Smáradóttur og yngri systur sinni Maríu Bóel, en hér má lesa viðtal við þær mæðgur í tengslum við helgina.

Þær sáu einnig um skipulagningu hennar í fyrra en þá var Guðrún framkvæmdastjóri. Hver er ástæða hlutverkaskiptanna? „Mamma þarf að djamma! Nei, að öllu gamni slepptu þá hafði ég meiri tíma aflögu í þetta verkefni heldur en mamma í sumar og þess vegna skiptum við um hlutverk. Þetta hefur gengið ósköp vel, við erum duglegar að skipta með okkur verkum og vinna saman.“

Fullt nafn: Eyrún Björg Guðmundsdóttir.

Aldur: 23.

Starf: Háskólanemi og framkvæmdastjóri Neistaflugs eins og staðan er núna.

Maki: Björn Þór Björnsson.

Þín fyrsta minning af Neistaflugi? Ég veit ekki hvaða ár það var en kvöldmatur á sunnudagskvöldi stendur upp úr, fyrir brekkusönginn sem þá var haldinn. Þá voru Gunni og Felix í mat heima hjá mér. Mér hefur alltaf þótt þeir ótrúlega skemmtilegir og þeir voru auðvitað miklar stjörnur sérstaklega þegar maður var svona lítill. Þeir komu til okkar þetta kvöld ár eftir ár og eru miklir fjölskylduvinir og mér þykir vænt um það.

Besta bók sem þú hefur lesið? Ég les mikið svo þær eru margar sem ná því að vera „bestar“ hjá mér í einhvern tíma. Ég mæli þó með Bróðir minn ljónshjarta, klassískri bók eftir Astrid Lindgren.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er mjög skipulögð.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég er oft aðeins of ferköntuð.

Ef þú þyrftir að eyða 100 þúsund kalli á klukkutíma, í hvaða verslun færirðu? Úff, ég er ekki viss, hugsa að verslunin Geysir yrði fyrir valinu, margt fallegt til þar.
Af hverju nám í íslensku og ritlist? Af því ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tungumálinu okkar og mér finnst gaman að lesa og skrifa. Einnig var ég þess aðnjótandi að hljóta góða íslenskukennslu bæði í grunnskóla og menntaskóla og held að ég hafi smitast af áhuga kennara minna þar.

Neskaupstaður er...? Paradís!

Duldir hæfileikar? Kemur kannski í ljós.

Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Það var nú svo margt, man vel eftir Kawasaki skónum og Sparks hettupeysunum.

Yfir hverju getur þú alltaf hlegið? Maríu Bóel litlu systur minni, svona oftast allavegana.

Hvaða töfralausn trúir þú á? Jákvæðnin fleytir manni langt.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst yngri? Söngkona og leikkona.

Hvernig líta kósífötin þín út? Flísbuxur og flíspeysa ásamt ullarsokkum og stundum ullarpeysu.

Hvað er í töskunni þinni? Heyrnatól, hlý föt og bók.

Tæknibúnaður? Síminn og tölvan eru staðalútbúnaður, þá sérstaklega tölvan vegna skólans og skrifanna.

Draumastaður í heiminum? Ástralía, hefur alltaf langað að ferðast þangað.

Í hverju finnst þér þú vera betri en aðrir? Ég segi pass.

Hverjum líkist þú mest? Ég hef heyrt það frá því ég man eftir mér að ég sé mjög lík pabba en núna undanfarin ár hef ég heyrt það æ oftar að ég sé lík mömmu minni. Ætli ég sé ekki bara lík þeim báðum, það er ekki leiðum að líkjast.

Hvaða ósið hefur þér reynst erfiðast að hætta? Að sleppa því að borða morgunmat. Ég gef mér ekki tíma í það.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Stefán Þorleifsson, langafi minn.

Settir þú þér áramótaheit? Nei, ég reyni að setja mér markmið reglulega en hef svo sem ekki tengt þau við áramótin.

Hvernig verður helgin þín? Neistaflugshelgin er alltaf frábær og ég geri fastlega ráð fyrir því að hún verði það líka í ár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar