Marína Ósk og Ragnar Ólafsson á ferð um Austfirði

Söngvaskáldin Marína Ósk og Ragnar Ólafsson verða næstu daga á Austfjörðum en þau eru á tónleikaferð um landið. Þau koma úr ólíkum áttum, Marína Ósk úr djassi en Ragnar úr rokki.

Í tilkynningu segir að þau muni flytja tónlist hvors annars og sameinast í heimi frásagna og einlægni. Þau kynntust í Húsi Máls og menningar og spila þar flest kvöld vikunnar fyrir fjölda áheyrenda. Þau sendu nýverið frá sér lagið „Er kólna fer.“

Marína Ósk hefur þrætt jazzhátíðir í Evrópu og eignast dygga hlustendur um allan heim og er með mikla mánaðarlega hlustun á Spotify. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir tónverk ársins í djassflokki og er orðin leiðandi afl á íslensku djasssenunni.

Ragnar hefur gefið út um 30 plötur á ferlinum og er þekktastur sem stofnmeðlimur hljómsveitarinnar Árstíða, sem hefur ferðast um meira en 30 lönd í þremur heimsálfum og urðu heimsfrægir fyrir flutning sinn á laginu Heyr, himna smiður á lestarstöð í Þýskalandi. Þá hefur Ragnar einnig leikið með rokksveitum á borð við Sign og Sólstafi og látið til sín taka í heimi kvikmynda og sjónvarps. Hann var á síðasta ári tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir tónlistina í þáttaröðinni Vitjanir.

Með þeim á ferðalaginu verður gítarleikarinn og pródúsentinn Kjartan Baldursson. Saman myndar þríeykið hljómsveit sem sjá mun um allan tónlistarflutning á ferðalaginu.

Þau spila í Tehúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöld, Hildibrand í Neskaupstað á þriðjudagskvöld og Beljanda á Breiðdalsvík á miðvikudagskvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar