Með snuddu og Cheerios í vasanum

Það verður dúndrandi stuð á Aski Taproom á Egilsstöðum í kvöld þegar Ásgrímur Guðnason stýrir fjörugu „pubquizi“ á staðnum klukkan 21:00 í kvöld. Ásgrímur er í yfirheyrslu vikunnar.


Askur Taproom er reglulega með pubquiz en þetta er í fyrsta skipti sem Ásgrímur er við stjórnvölinn.

„Ég renni frekar blint í sjóinn, en þegar ég var spurður hvort ég gæti gert þetta sagði ég bara já því ég hélt að ég hefði farið á mörg pöbbkviss. Þegar ég hugsaði þetta betur þá fattaði ég að ég ruglaði saman pöbbkviss og bingói, en þar er ég þaulreyndur,“ segir Ásgrímur sem segir gesti mega búast við fjölbreyttum spurningum, allt frá The Charlies til Einars Kárasonar.

Fullt nafn: Ásgrímur Guðnason.

Aldur: 36 ára og 11 mánaða.

Starf: Yfirmaður heimilismála (í fæðingarorlofi).

Maki: Hrefna Ýr Guðjónsdóttir.

Börn: Tanya Ruth, Guðni Berg og Júlía Ruth.

Hver er lélegasti fimmaur sem þú hefur heyrt? Fimmaurar eru aldrei lélegir ef rétt er farið með þá.

Hver er versta vinnan sem þú hefur unnið? Ég var einusinni draugur á frumsýningu á einhverri hrollvekju, var að hræða fólk í hléii, var með grímu. Ég þekktist ekkert en ég skammast mín enn.

Hvað stendur upp úr það sem af er ári? Síðustu tveir mánuðir sem ég er búinn að vera í fæðingarorlofi með dóttur minni, þvílík forréttindi að vera heima með henni.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítill? Sjómaður og leikari.

Vínill eða geisladiskur? Geisladiskurinn.

Hvað er ást? Fyrstu þrír stafirnir í ástandsskoðun.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Sumarið, það er bara allt gott við sumarið.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Pulsa...ekki pylsa.

Hvert er uppáhalds lagið þitt? November Rain með Guns N‘ Roses.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að geta borðað án þess að fitna.

Besta bók sem þú hefur lesið? The Da Vinci Code eftir Dan Brown.

Hver er þinn helsti kostur? Óeðlilega mikið jafnaðargeð.

Hver er þinn helsti ókostur? Óeðlilega mikið jafnaðargeð.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Að sjálfsögðu Vopnafjörður og Brúarás fylgir þar strax á eftir.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Mjólk, egg og smjör.

Hvaða töfralausn trúir þú á? Ég trúði alltaf á Nubo Létt. Það var klúður.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Ekki enn fundið neitt sem toppar hrossabjúgun.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Ég hef aldrei átt mér fyrirmynd en reyni þeim mun meira að vera góð fyrirmynd fyrir börnin min.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Að enginn þyrfti að líða skort.

Hvað er í vösunum hjá þér? Eins og er er það snudda og tveir Cheerios-hringir.

Duldir hæfileikar? Hef nokkuð öfluga stjórn á augabrúnunum.

Hvaða einstakling finnst þér þú þekkja, þótt þú hafir aldrei hitt hann? Diego Forlan.

Hver eru þín helstu áhugamál? Hata það ekkert að spila póker í góðum hópi.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Skúra, aðalega afþví að ég hef ekki enn fjáfest í skúringarvél.

Hvað ættu allir að prófa að minnsta kosti einu sinni í lífinu? Að setja bbq-sósu á plokkfisk.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Þegar fólk er nógu öruggt með sjálft sig til að vera það sjálft.

Draumastaður í heiminum? Langar alveg hrikalega mikið til New York.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar