Rithöfundar koma til að fylgja eftir bókum um Austurland
Rithöfundar frá Austurlandi sem eru að senda frá sér bækur um Austurland verða á ferðinni til að kynna þær um helgina og lesa upp úr þeim. Benný Sif Ísleifsdóttir kynnir nýja skáldsögu sem gerist á Mjóafirði meðan Logi Kristjánsson og Ólöf Þorvaldsdóttir skrifa minningar sínar frá snjóflóðunum í Neskaupstað.Bók Ólafar og Loga nefnist „Fjallið í fangið“ og segir frá minningum þeirra frá snjóflóðunum. Logi var þá bæjarstjóri í Neskaupstað, hafði tekið við þeirri stöðu 1973 og gegndi henni fram til 1984. Ólöf var einnig vel tengd í samfélaginu og ritstýrði meðal annars vikublaðinu Austurlandi. Þau kynna bók sína í Beituskúrnum á laugardag milli klukkan 15 og 17.
Benný Sif kemur frá Eskifirði og sendir í ár frá sér sína fimmtu skáldsögu sem ber heitið „Speglahúsið“. Sagan gerist á Mjóafirði eftir að Rósa, miðaldra hárgreiðslukona, leggur á skærin á hilluna og flytur þangað til að koma á fót óvenjulegri ferðaþjónustu þar sem sótt er í gamlar minningar úr fjölskyldu hennar og firðinum. Í tilefni útkomu bókarinnar var Mjófirðingum borðið til útgáfuhófs nýverið.
Benný Sif er á hringferð með öðrum rithöfundi, Ásu Marin, sem kynnir söguna „Hittumst í Hellisgerði.“ Snjólaug sér fram á einmanaleg jól eftir að barnsfaðir hennar ákveður að eyða þeim erlendis og tekur dóttur þeirra með sér. En Snjólaug sér ráð út úr því – og setur sér það markmið að finna sér kærasta fyrir aðfangadag.
Þær eiga stífa dagskrá fyrir höndum, verða í Faktorshúsinu á Djúpavogi klukkan 14 á laugardag og Beljanda á Breiðdalsvík klukkan 17. Á sunnudag klukkan 17 verða þær á Hótel Hildibrand í Neskaupstað, á mánudag klukkan 16 í Bókasafninu á Reyðarfirði og 18 á Sumarlínu á Fáskrúðsfirði.
Ferð þeirra lýkur á þriðjudag með þremur upplestrum, þar af tveimur á Eskifirði. Klukkan 13 verða þær í Valhöll og 20 í Randulfssjóhúsi en þess á milli á Bókasafninu á Egilsstöðum klukkan 17.