„Rómantík getur verið út um allt og alls staðar“
„Þetta er í fyrsta skipti sem eitthvað þessu líkt hefur verið gert hér að því er ég best veit. Í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga ræddum við það mikið að auka aðgengi að stjórnsýslunni hjá sveitarfélaginu og þetta er liður í að gera það,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, en hann verður í Kjörbúðinni seinnipart föstudags þar sem hann svarar fyrirspurnum íbúa um málefni sveitarfélagsins. Gauti er í yfirheyrslu vikunnar.
„Með þessu er fyrst og fremst verið að búa til vettvang þar sem íbúar og stjórn sveitarfélagsins geta hist á óformlegan hátt og spjallað um heima og geima án þess að setja sig í einhverjar stellingar. Síðast en ekki síst þá held ég að þetta eigi eftir að vera þetta svo skemmtilegt,“ segir Gauti, sem situr fyrir svörum milli klukkan 16:30 og 18:00.
Fullt nafn: Gauti Jóhannesson.
Aldur: 54 ára.
Starf: Sveitarstjóri.
Maki: Berglind Einarsdóttir.
Börn: Grettir Gautason, Auður Gautadóttir.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? AB mjólk, ostur og lýsi.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst yngri? Bakari.
Áttu þér einhvern draum? Örugglega.
Hver er þinn helsti kostur? Bjartsýni.
Hver er þinn helsti ókostur? Stundum of bjartsýnn.
Hvað felst helst í starfi sveitarstjóra? Starfið er afar fjölbreytt en snýst að mestu leyti um samskipti við fólk.
Hvað er rómantík fyrir þér? Rómantík getur verið út um allt og alls staðar.
Besta bók sem þú hefur lesið? Veit það er ekki frumlegt en það hefur engin toppað „Sjálfstætt fólk“.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Mér hefur alltaf fundist nesti ofsalega gott.
Hvað er best við Djúpavog? Samfélagið, hér býr einvalalið.
Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Sítt að aftan.
Yfir hverju getur þú alltaf hlegið? Frasier.
Ef þú yrðir handtekinn án skýringa, hvað myndu vinir þínir og fjölskylda halda að þú hefðir gert af þér? Þeim dytti sjálfsagt eitt og annað í hug, en ég veit það bara ekki.
Hvað ættu allir að prófa að minnsta kosti einu sinni í lífinu? Að gera það sem þá langar til.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Amma Dadda.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Jákvæðni og kímnigáfu.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Mér leiðist að strauja, sennilega af því ég geri það svo illa.
Duldir hæfileikar? Engir.
Hver eru þín helstu áhugamál? Veiðiskapur og útivera.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Sigurjón Stefánsson á fiskmarkaðnum á Djúpavogi.
Hvað ætlar þú að gera um helgina? Reyna að vera svolítið úti, ég þarf líka að vinna aðeins og svo þarf ég að undirbúa mig undir ferðalag til Kóreu á mánudaginn þar sem mér var boðið að taka þátt í ráðstefnu á vegum Cittaslow.