Sagan um Fásinnu

Í ár eru 40 ár liðin frá því að Bítillinn fyrrverandi Ringo Starr var heiðursgestur Atlavíkurhátíðar um verslunarmannahelgi. Aðalhlutverk Ringos var að afhenda verðlaun í árlegri hljómsveitarkeppni hátíðarinnar. Hljómsveitin sem vann var Fásinna.

„Fásinna er upphaflega skólahljómsveit frá Eiðum, þótt við værum ekki allir nemendur í Alþýðuskólanum. Við byrjuðum fjórir. Ég og Höskuldur Svavarsson stofnuðum sveitina. Við vorum ákveðnir í að stunda hljóðfæraleik og rokk og ról.

Síðan fengum við með okkur Sigurð Jakobsson og bróður minn Gissur,“ segir Bjarni Halldór Kristjánsson – eða einfaldlega Halli.

Hljómsveitakeppnin í Atlavík 1984


Halli segir Fásinnu hafa spilað mikið á Eiðum veturinn 83-84 og þannig byggt upp dyggan aðdáendahóp. Stefnan var þá sett á hljómsveitakeppnina, sem var árviss viðburður Atlavíkurhátíðanna sem Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) stóð fyrir.

„Ef þú varst í unglingahljómsveit á þessum tíma var sjálfgefið að taka þátt. Hljómsveitirnar sem tóku þátt fengu frítt inn og það munaði um það,“ segir Halli en rifja má upp að Skriðjöklarnir frá Akureyri, sem síðar urðu landsfrægir, voru stofnaðir utan um það að fá frítt inn. Þeir urðu í öðru sæti 84 og unnu 85.

„Við vorum ákveðnir í að spila frumsamda tónlist og eyddum lunganum úr sumrinu í æfingahúsnæðinu við að búa til rokktónlist. Sérstaklega Höskuldur var mjög upptekinn af rokkinu, okkur fannst 80‘s tónlistin sem tröllreið öllu hundleiðinleg. Höskuldur samdi texta beinlínis gegn henni sem kallaðist „Hvernig fílarðu rokkið?“

Bjarni segir hljómsveitirnar hafa skráð sig með að hringja í skrifstofu UÍA, gefa upp nafn sveitar og fjölda hljómsveitarmeðlima. Í Atlavík hafi síðan verið fyrst forkeppni með öllum sveitunum á laugardegi, síðan úrslitakeppni með fimm sveitum á sunnudegi og þær þrjár bestu verðlaunaðar.

Síðan var dómnefnd með ýmsum fulltrúum, meðal annars frá UÍA og aðalhljómsveit hátíðarinnar, sem oftast voru Stuðmenn. Þeir voru það 84. Atkvæði áhorfenda höfðu einnig vægi á stundum. „Það var metið hvað menn kynnu að spila, hvernig lögin vöru og ekki síst viðbrögð áhorfenda. Þau voru okkur í hag. Við áttum dyggan stuðningsmannahóp í Eiðaskóla.

Ég held að við höfum líka verið eina hljómsveitin þetta árið í hljómsveitabúningum. Sú hugmynd kom eins og flestar aðrar góðar hugmyndir frá Höskuldi. Það bjó ekki mikil hugsun að baki, bara að við yrðum að vera í búningum. Þá var það eina í stöðunni að fara í Kaupfélagið og skoða hvaða efni væri til í vefnaðarvörudeildinni. Við vorum ekki efnaðir og keyptum sennilega það ódýrasta. Móðir mín fór með okkur að kaupa efnið og sneið síðan búning á mig. Mæður hinna fengu síðan uppskriftina til að geta saumað sams konar búninga á þá.

En við vorum líka vel spilandi og fluttum kraftmikið rokk. Við fengum gríðarlega góðar undirtektir og fundum að okkur hafði gengið vel, en svo vissi maður ekkert hvað dómararnir voru að hugsa.“

Stúdíótímarnir stærstu verðlaunin


Síðan var tilkynnt um úrslitin og Ringo Starr mætti til að afhenda verðlaunagripinn, Hringstjörnuna, sem hönnuð var með vísan til listamannsnafns Bítilsins. Hún mun enn vera í fórum Fásinnumanna. „Ég er minntur á þetta af og til. Maður áttaði sig kannski ekki á því fyrr en síðar hvað það var stórt að hann hefði verið þarna og hlustað á okkur þótt auðvitað grínuðust við með að við myndum ekki þvo okkur um hendurnar næstu dagana eftir að hafa tekið í hönd hans. Hann sagði annars ekki margt við okkur, hvatti okkur áfram að þetta hefði verið flott hjá okkur. Eftir á er maður stoltur að hafa fengið að hitta hann.“

Halli viðurkennir að mögulega hafi nærvera Ringos að einhverju leyti skyggt á sigur Fásinnu. „Umfjöllun um hátíðina var öll um Ringo og síðan kannski að einhverju leyti um Stuðmenn. Við upplifðum þetta samt sem upphefð.“

En á þessu augnabliki voru Fásinnumenn með augun á enn stærri verðlaunum. „Stærsti hluti verðlaunanna var styrkur til að taka upp plötu. Allar hljómsveitir á þessum tíma dreymdi um að komast í hljóðver en tímarnir þar voru mjög dýrir.“

Engar upptökur til af sigurlögunum


Fásinna ætlaði sér að fylgja sigrinum eftir og hélt áfram að semja tónlist. Hljómsveitin fór í hljóðver vorið 1985 og tók upp sex laga plötu, Fásinnu. Af lögunum á plötunni náði „Hitt lagið“ hvað mestri spilun. Lögin sem tryggðu sigurinn í Atlavík árið áður rötuðu ekki á hana. „Ég man ekki af hverju. Kannski voru það mannabreytingarnar eða við höfðum þroskast í aðra átt.“

Það þýðir að lögin eru óaðgengileg í dag. „Ég veit ekki til þess að það séu til nein afrit af þeim. Vinkonur okkar fullyrða að þær hafi átt spólu með „Framtíðinni“ en þær hljóta að hafa tekið það upp á eigið tæki. Ef einhver á hljóðrit þá væri mikill fengur í að fá það í hendurnar.

Aðrar sveitir á þessum tíma tóku upp lögin sín á kassettutæki með 1-2 hljóðnemum en því miður gerðum við það ekki. Sennilega hafði ég ekki áhuga á því þar ég taldi gæðin ekki eiguleg. Ég vildi að tæknin í dag hefði verið komin þarna. Í okkur bjó mikið af tónlist sem þurfti að fá útrás en fékk það ekki almennilega því við höfðum ekki tækifæri til að hljóðrita hana. Það er ákveðin eftirsjá yfir að við höfum ekki gert meira af því og kannski stoppuðum við of snemma.“

EP platan er ekki til á neinum efnisveitum. Hitt lagið rataði á safndiskinn „Í laufskjóli greina“ sem gefinn var út í tilefni af 50 ára afmæli Egilsstaðabæjar árið 1997. Hann er heldur ekki aðgengilegur á netinu. „Ég á enn nokkur eintök af plötunni en líka upptökurnar á segulböndunum. Ég mun koma þessu á veitur áður en ég dey.“

En Fásinna fylgdi plötunni ekki mikið eftir. Haustið 1985 tók sveitin að liðast í sundur þegar hljómsveitarmeðlimir fluttu hver í sína áttina. Höskuldur varð bráðkvaddur árið 2013 en Halli segir hann hafa átt mestan þátt í að reka hana áfram. Hún hefur því ekki komið saman til að spila eigin tónlist en hluti hennar kom fram á Eiðahátíð árið 2013. Halli hefur sjálfur átt farsælan tónlistarferil, en hann hefur verið gítarleikari SúEllen frá árinu 1987.

Halli til vinstri og Höskuldur til hægri með Hringstjörnuna íklæddir hljómsveitarbúningunum. Mynd: Úr einkasafni

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar