Sirkushópur, Beðið eftir Beckett og Subaru sem varð að listaverki
Ljósinnsetning úr bílapörtum, nýsirkusssýning sem byggir á því hvernig vindurinn blæs og gamanleikrit er meðal þess sem í boði er á Austurlandi um helgina.Um helgina lýkur sýningunni „Fly me to the moon“ sem er í Tankinum á Djúpavogi. Opnið er frá 14-17 laugardag og sunnudag en listamaðurinn Birgir Sigurðsson verður með listamannaspjall þar klukkan 15:30 á sunnudag.
Þar mun hann fara yfir sögu Subary Justy bifreiðar sem hann hefur þrisvar sinnum notað í stór ljóslistaverk, líkt og í Tankinum.
Leikhús
Hið vestfirska Kómedíuleikhús er komið austur og gerir víðreist. Í kvöld klukkan 20:00 sýnir það gamanleikinn Beðið eftir Beckett í Valhöll á Eskifirði. Í verkinu býður leikari nokkur þess að Samuel Beckett skrifi fyrir sig nýtt leikrit. Á meðan hann bíður þess styttir hann sér stundir með að máta sig við persónum úr eldri leikritum Becketts. Leikari er Elfar Logi Hannesson, en hin unga Gyða Árnadóttir af Héraði fer með hlutverk sendiboða í verkinu. Það verður sýnt í Sláturhúsinu á Egilsstöðum næsta fimmtudag.
Í Sláturhúsinu um helgina eru hins vegar síðustu sýningarnar á nýju austfirsku leikverki um Sunnefu Jónsdóttur. Sýnt er í kvöld og annað kvöld klukkan 20:00.
En Kómedíuleikhúsið er með fleiri verk og sýnir víðar. Það sýnir barnaleikritið Iðunni og eplin á Hótel Framtíð á Djúpavogi klukkan 14:00 og í Fjarðaborg á Borgarfirði eystra klukkan 15:00 á sunnudag. Í verkinu er það Heimdallur sem segir gestum sögur úr Valhöll og af ásum, að þessu sinni um það þegar Loki platar Iðunni út í skóg að bragða epli.
Sirkus og BRAS
Sú sýning er hluti af barnamenningarhátíð Austurlands, BRAS. Meira er um að vera á hennar vegum um helgina því sirkuslistahópurinn Hringleikur sýnir nýsirkussýninguna Allra veðra von á Fáskrúðsfirði og Vopnafirði um helgina. Sýnt verður á Fáskrúðsfirði við hliðina á íþróttavellinum klukkan 14:00 á morgun en 15:00 á Vopnafirði á sunnudag.
Verið er að sýna verk í vinnslu, því frumsýning er ekki áætluð fyrr en næsta sumar og þá verður ferðast með verkið um landið. Í sýningunni er sirkuslistin notuð til að skoða tengsl mannsins við veðrið.
Af öðrum viðburðum á vegum BRAS má nefna sólarprent í Stúdíó Ströndinni og vinnusmiðju með form og rými í Herðubreið á Seyðisfirði.
Íþróttir
Íslandsmótið í blaki hófst um síðustu helgi og karlalið Þróttar leikur sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu þegar liðið tekur á móti Fylki klukkan 14:00 á morgun.
Helgin skiptir líka miklu máli fyrir austfirsku liðin í Íslandsmóti karla í knattspyrnu en þrjú þeirra eru í fallbaráttu og eiga öll svokallaða sex stiga leiki um helgina. Leiknir tekur á móti Víking Ólafsvík í fyrstu deild á morgun en á sama tíma spilar Einherji gegn Álftanesi og Höttur/Huginn gegn Vængjum Júpíters á útivelli. Á sunnudagskvöld heimsækir Fjarðabyggð Kára í annarri deild.
Úr sýningunni Sunnefa - sönn saga? Mynd: Tara Tjörvadóttir