Stuðningyfirlýsing við kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna
Þinghópur Borgarahreyfingarinnar lýsir yfir stuðningi við meginkröfur Hagsmunasamtaka heimilanna. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna íbúðarskulda ganga alltof skammt. Ekki nægir að bregðast við vanda heimila sem þegar eru komin í þrot. Gera þarf ráðstafanir til að koma í veg fyrir að tugþúsundir heimila fari sömu leið.
Í fréttatilkynningu segir að fyrsta stefnumál Borgarahreyfingarinnar séu neyðarráðstafanir í þágu heimilanna og hljóðar svo:
„Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008). Höfuðstóll og afborganir húsnæðislána lækki til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 2–3% og afborgunum af húsnæðislánum megi fresta um tvö ár með lengingu lána. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við verðtryggð íbúðalán. Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að breyta þeim í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði afnumin.“
Með réttu er spurt hver skuli bera kostnaðinn af þessum aðgerðum. Svarið fæst með því að spyrja hver muni bera kostnaðinn af gjaldþroti tugþúsunda heimila og þrotnum greiðsluvilja fólks. Um leið yrði að svara spurningunni um það hver greiði kostnaðinn af þeim mannlega harmleik sem hvert gjaldþrota heimili getur orðið. Það stendur upp á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að svara.
Óvenjulegar aðstæður krefjast óhefðbundinna úrræða. Lausn á skuldavanda heimilanna þolir ekki lengri bið.