Sýningin segir sögur fólksins og frá þeim hremmingum sem það lenti í
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. júl 2022 11:57 • Uppfært 22. júl 2022 12:41
Ljósmyndasýningin „The Landslide Project“ eða „Aurskriðuverkefnið“ opnar í dag á Lónsleiru á Seyðisfirði þar sem fyrirhugað er að byggja upp safnasvæði Tækniminjasafns Austurlands til framtíðar. Sýningin, sem fjallar um aurskriðurnar á Seyðisfirði í desember 2020 markar upphaf Smiðjuhátíðar safnsins.
„Sýningin verður á Lónsleirunni þar sem við stefnum á að byggja upp safnið til framtíðar. Við stefnum á að sýningin standi þar næsta árið en við sjáum fyrir okkur að við verðum með fleiri útisýningar í framtíðinni.
Sýningin er mikilvæg því hún segir sögu fólksins og frá þeim hremmingum sem það lenti í. Það er veigamikill hluti fyrir samfélagið að vinna í því sem skeði,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, safnstjóri Tækniminjasafnsins.
Á sýningunni gefur að líta myndir og texta sem þau Jessica Auer og Zuhaitz Akizu hafa sett saman undir merkjum Stöndin Studio í samvinnu við ljósmyndarana Katju Goljat og Matjaž Rušt. Zuhaitz og Jessica hafa lengi verið viðloðandi safnið og verða með ljósmyndanámskeið á Smiðjuhátíðinni á morgun.
Safnið missti bæði mikið af munum og húsnæði á einu bretti í skriðuföllunum. Það setur sinn svip á hátíðina, vinnustofurnar eru færri en þær voru áður. Jónína segir samt mikilvægt að halda hátíðinni gangandi.
„Þótt við höfum misst húsnæði og safngripi þá eigum við enn andann. Við reynum að halda í þessar föstu hátíðir sem safnið stóð fyrir með breyttu sniði þar til við getum opnað á ný. Þetta er hátíðin sem við héldum með heimafólki og því er hún okkur mjög kær,“ segir Jónína.
Lokapunktur hátíðarinnar á laugardagskvöldi er þó sem fyrr kótilettukvöld með tónleikum en að þessu sinni spila Jón Hilmar Kárason undir matnum og eftir hann þau Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson.
Jónína segir að safnið sjálft sé smá saman að rísa úr rústunum. Framkvæmdir standa yfir við gömlu Vjelsmiðjuna, áður helsta hús safnsins. „Við vonumst til að þær klárist í sumar þannig hægt verði að opna húsnæðið í haust og þar með verði komið einhvers konar húsnæði á vegum safnsins sem við getum nýtt að einhverju leyti þar til við fáum annað,“ segir Jónína að lokum.