Skip to main content

Takmörkuð sýn á sólmyrkvann 2026 frá Austurlandi en samt sérstakur viðburður

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. okt 2025 10:31Uppfært 02. okt 2025 10:34

Ísland er talinn besti staður heims til að fylgjast með almyrkva á sólu sem verður þann miðvikudaginn 12. ágúst á næsta ári. Austfirðir verða sá staður sem myrkvinn sést síst frá. Stjörnufræðingur segir að íbúar svæðisins muni samt upplifa einstakan viðburð.


Almyrkvaslóðin, þar sem sólin hverfur alveg í einhvern tíma, liggur yfir vestasta hluta landsins, það er Vestfirði, Snæfellsnes, Reykjavíkursvæðið og Reykjanesskaga.

Á Austurlandi verður ekki almyrkvi, til þess þarf tunglið alveg að hylja sólina, heldur deildarmyrkvi. Myrkvinn verður minnstur yfir Neskaupstað, 95,19%. „Það er samt verulegur deildarmyrkvi,“ segir stjörnufræðingurinn Sævar Helgi Bragason.

Hann heldur úti vefnum solmyrkvi2026.is en á honum er að finna gagnvirkt Íslandskort með upplýsingum um myrkvann. Með því að smella á kortið má sjá tímasetningar og ýmsar upplýsingar um birtingu sólmyrkvans á viðkomandi stað.

Hvernig sést sólmyrkvinn frá Austurlandi?


Samkvæmt því mun deildarmyrkvinn í Neskaupstað hefjast klukkan 16:48, ná hámarki klukkustund síðar og ljúka eftir tæpa tvo tíma. „Ef fólk á ekki kost á að fara vestur mun það samt upplifa djúpan og fallegan deildarmyrkva og taka eftir breytingum á náttúrunni. Það skyggir og kólnar aðeins og birtan tekur á sig fallegan silfurlitaðan blæ,“ segir hann.

Á kortinu er einnig búið að merkja inn hvar skuggi verður vegna fjalla þegar myrkvinn nær hámarki. Almennt á hann að sjást frá austfirskum þéttbýlisstöðum, nema að hluti Seyðisfjarðar verður í skugga. Besta útsýnið verður væntanlega ofan af heiðum.

Vitaskuld verður best að sjá sólmyrkvann í heiðskíru veðri en hans verður einnig vart þótt það sé skýjað. Á vestari hluta landsins rökkvar eins og eftir sólsetur í heiðskíru en í skýjuðu veðri verður algjört myrkur í 1-2 mínútur. Sé skýjað yfir Austfjörðum mun dimma. Skýjaslæða á himni getur einnig skapað sérstakar aðstæður sem áhugaverðar verða fyrir ljósmyndara.

Óháð skýjafari eða öðru þurfa þeir sem ætla að fylgjast með sólmyrkvanum að verða sér úti um sólmyrkvagleraugu til að vernda sjón sína. Í gegnum sjónauka verður líka hægt að sjá sólbletti á sólinni eða þegar tunglið gengur inn fyrir hana.

Hvaða stjörnuviðburðir munu næst sjást frá Austurlandi?


Viðbúið er að fjöldi fólks geri sér ferð til Íslands til að sjá þennan sérstaka viðburð. Sævar Helgi vonast til að hægt verði að hvetja þá gesti til að staldra við á landinu og ferðast um það fyrir eða eftir viðburðinn. Hætt er þó við að akkúrat þennan dag verði minna að gera hjá austfirskum ferðaþjónustuaðilum.

Reyndar fengu Austfirðingar betri sýn á myrkva sem varð við landið þann 20. mars árið 2015. Þá varð 99% deildarmyrkvi yfir austanverðu landinu en almyrkvi suður af því. „Munurinn á milli 99% deildarmyrkva og almyrkva er bókstaflega dagur og nótt,“ útskýrir Sævar Helgi.

Talsvert langt verður í næsta almyrkva á sólu á Austurlandi. Sólsetursmyrkvi mun sjást 20. mars árið 2406 og almyrkvi 7. september árið 2974. „Jafnvel þótt illa viðri þá verður viðburðurinn á næsta ári einstök og sérstök upplifun sem við kynnumst bara einu sinni á ævinni.“

Næsti stóri viðburður á himinhvolfinu sem Austfirðingar geta fylgst með er deildarmyrkvi á tungli föstudaginn 28. ágúst 2026. Hann sést frá Egilsstöðum klukkan 5:39 en þá verður neðri hluti tunglsins rautt á litinn.