„Þeir sem gátu hætt snemma gerðu það“

Austfirðingar hafa í dag notið óvenjulegrar veðursældar miðað við að enn er miður mars. Hitinn fór í yfir tuttugu stig á tveimur stöðum eystra.

Hæst fór hitinn í 20,4 á Dalatanga og í 20,2 gráður í Neskaupstað á þriðja tímanum í dag. Það nær þó ekki mesta hita sem mælst hefur í marsmánuði, 20,5 stig á Kvískerjum í Öræfum 29. mars 2012.

„Veðrið er eins gott og fólk segir, það er ekki verið að ljúga neinu,“ segir Hrönn Grímsdóttir sem býr í Neskaupstað.

„Ég hætti upp úr klukkan tvö, fór heim og settist út á pall. Ég held að allir sem gátu hætt fyrr hafi gert það enda orðið mjög heitt á skrifstofunni. Við heyrum hér í nágrönnunum, það er allt að lifna við eins og gerist þegar sólin fer að skína.

Það eina sem vantar er ísvélin í sjoppunni. Hún er ekki komin í gang. Það er einn af vorboðunum þegar það gerist,“ segir Hrönn.

Eðlilega hefur hitinn aðeins lækkað síðdegis en mældist þó enn 16 gráður í Neskaupstað, á Seyðisfirði og Reyðarfirði klukkan 17:00, 17 gráður á Fáskrúðsfirði og 15 á Teigarhorni í Berufirði.

„Sólin er það lágt á lofti að hún fer að setjast en hún er þó enn þarna uppi og sendir okkur hita. Ég get enn verið á stuttbuxum og bol á pallinum.“

Starfsfólk Múlaþings slakar á að loknum starfsdegi á tröppum Valaskjálfar í dag. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.