Skip to main content

Tillögur sálfræðinga vegna Heilsugæslu Fjarðabyggðar

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. des 2009 18:06Uppfært 08. jan 2016 19:21

Tveir sálfræðingar, sem að tilstuðlan heilbrigðisráðuneytisins og að ósk bæjaryfirvalda í Fjarðabyggð um aðkomu óháðs aðila, könnuðu fyrr í vetur aðstæður á vinnustað Heilsugæslunnar í Fjarðabyggð, hafa sent frá sér skýrslu. Þar eru settar fram tillögur um að finna beri leið til að leysa Hannes Sigmarsson yfirlækni Heilsugæslu Fjarðabyggðar frá störfum, HSA beiti sér fyrir gerð sálfélagslegs áhættumats meðal starfsfólks og stefnu sem lýtur að eineltismálum og að hlúa beri sérstaklega að starfshópnum hjá Heilsugæslu Fjarðabyggðar, sérstaklega á Eskifirði. Hannes fékk sent uppsagnarbréf í fyrradag.

Helgi Már Arthursson, upplýsingafulltrúi heilbrigðisráðuneytis, segir að skýrsla sálfræðinganna liggi nú fyrir. Persónuverndarsjónarmið ráði því að ráðuneytið geti ekki afhent skýrsluna, enda byggist hún á trúnaðarsamtölum við fjölmarga sem beina og óbeina aðild eiga að málinu. Skýrslan hefur því aðeins verið send landlæknisembættinu eðli málsins samkvæmt sem trúnaðarmál.

Þann 21. desember 2009 var sent bréf til Heilbrigðisstofnunar Austurlands þar sem stofnuninni voru kynntar tillögur sálfræðinganna og þar sem stofnunin er beðin, eins og segir í niðurlagi bréfsins, að hafa ,,ofangreindar tillögur til hliðsjónar í umfjöllun um" málið.

Heilbrigðisráðuneytið sendi Austurglugganum afrit af bréfinu í dag samkvæmt beiðni þar að lútandi:

 

,,Heilbrigðisráðuneytið,

Reykjavík, 21. desember 2009.

Tilv.:HBR09030022/09.31.01

 

Heilbrigðisráðuneytið leitaði liðsinnis sálfræðinganna Einars Gylfa Jónssonar og Þórkötlu Aðalsteinsdóttur vegna aðstæðna á vinnustað Heilsugæslunnar í Fjarðabyggð. Áður hafði borist erindi frá bæjarráði Fjarðabyggðar um að láta fara fram hlutlausa úttekt á starfsemi HSA í Fjarðabyggð. Fenginn verði sjálfstætt starfandi úttektaraðili til að eftir liðsinni undirritaðra vegna aðstæðna á vinnustað á Heilsugæslunni í Fjarðabyggð.

 

Nú liggur fyrir skýrsla ofangreindra sálfræðinga. Tillögur þeirra eru eftirfarandi;

 

1.       Finna þarf leið til að leysa HS frá störfum. Líklega heppilegast að ráðuneytið sjálft hlutist til um það.

2.       Sálfélagslegt áhættumat: Skorað er á stjórnendur HSA að láta hið fyrsta fara fram lögbundið mat á sálfélagslegum áhættuþáttum. Í sálfélagslegu mati er hugað að vinnuverndarmálum og líðan starfsfólks. Kannað er nánar hvernig starfsfólki líður í vinnunni, athugaðir samskiptahættir, þar á meðal einelti og neikvæð hegðun og metnir þeir þættir sem valda streitu og álagi í starfinu.

3.       Eineltismál: Í ljósi þeirra svara sem lúta að einelti á vinnustaðnum og hvernig brugðist hefur verið við slíkum málum er mikilvægt að HSA móti stefnu og verklagsreglur varðandi eineltismál, eins og lög kveða á um.

4.       Hlú að starfshópnum á Heilsugæslunni í Fjarðabyggð, sérstaklega á Eskifirði. Auk þess þarf allur starfshópurinn fræðslu um samskipti á vinnustað og mótun góðs starfsanda.

Heilbrigðisráðuneytið fer hér með fram á að HSA hafi ofangreindar tillögur til hliðsjónar í umfjöllun um þetta mál.

 

Fyrir hönd ráðherra,

(sign)

Berglind Ásgeirsdóttir“

hsa_bref_21.jpg