Skip to main content
Frá Matarmóti Austurland í fyrra. Mynd: Austurbrú

Um 30 sýnendur á fimmta Matarmóti Austurlands

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. nóv 2025 15:33Uppfært 14. nóv 2025 15:34

Um 30 matarframleiðendur af Austurlandi kynna vörur sínar á fimmta Matarmóti Austurlands sem haldið verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun. Matreiðslumeistarar sýna einnig nýsköpun í matargerð og haldið verður málþing með áherslu á tekjusköpun í landbúnaði.

„Við verðum með um 30 sýnendur. Allir aðilarnir nema einn eru af Austurlandi. Það eru fyrrverandi nemendur Hallormsstaðaskóla standa að baki fyrirtæki sem ræktar baunaspírur. Við buðum þeim að vera með og þau þáðu það,“ segir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, verkefnastjóri Matarauðs Austurlands hjá Austurbrú.

Dagurinn byrjar á málþingi klukkan tíu þar sem áherslan er á hvernig bændur geta aukið tekjur sínar. Einn erlendur fyrirlesari kemur, Harriet Olafsdottir frá Færeyjum sem skapað hefur sér starf sem sauðfjárbóndi með því að fara óhefðbundnar leiðir. Meðal annarra fyrirlesara eru Sæunn Vigdís Sigvaldadóttir, býflugnabóndi á Héraði, lífrænir sauðfjárbændur og hjónin að baki ullariðjunni Uppspuna.

Matarmótið sjálft stendur frá klukkan 14-17. Auk sýnendanna verða á svæðinu kokkar sem fara nýjar leiðir. Ægir Friðriksson matreiðslumeistari úr Fellabæ kemur með nemendur úr Hótel- og veitingaskólanum sem vinna nýja rétti í samvinnu við Móður Jörð í Vallanesi, Lindarbrekkubúið í Berufirði og fiskvinnsluna Goðaborg á Breiðdalsvík. Ólafur Ágústsson frá Egilsstöðum vinnur með Tandrabrettum og Síldarvinnslunni með uppsjávarfisk eldaðan í pizzaofni.

Fyrsta matarmótið var haldið árið 2021. Fyrstu tvö árin voru þau lokuð og aðeins ætluð til að tengja saman veitingaaðila og framleiðendur. Viðburðurinn nú er öllum opinn. Það var ákall um samtal þar á milli. Síðan vildu framleiðendur opna þetta meira fyrst þeir væru komnir með vörur sínar á staðinn. Þetta er samt sem áður enn gott tækifæri fyrir veitingaaðila til að koma og sjá hvað er í boði og mynda tengingar. Við erum með nokkra nýja sýnendur,“ segir Halldóra.

Í fyrra mættu um 1000 manns í Sláturhúsið. Þá var maturinn aðeins á einni hæð hússins þannig að þröngt varð um fólk. Í ár verða báðar hæðirnar nýttar og búið að bæta við 400 fermetrum af sýningarrými. Rýmra á því að verða um bæði sýnendur og gesti.