Ung norðfirsk listakona eftirsóttur húðflúrari í Reykjavík

Sædís Embla Jónsdóttir er að hluta til uppalin í Neskaupstað og á mikla tengingu í bæinn enn í dag. Sædís er 21 árs og starfar sem húðflúrari í Reykjavík. Hún byrjaði að flúra vini sína í Neskaupstað og lærði þannig smám saman á listina.

Sædís segir að áhuginn á húðflúrum hafi kviknað þegar hún var í 8. bekk. „Ég varð heltekin af húðflúrum og var alltaf að plana flúr sem ég myndi fá mér í framtíðinni. Ég var alltaf að suða í mömmu um húðflúr en mátti ekki fá mér fyrr en ég varð 18 ára.”

Sædís kemur frá listrænni fjölskyldu en mamma hennar og eldri systir eru líka listakonur. „Það hefur alltaf verið mikil list í mér síðan ég var krakki, ég hef alltaf verið hugmyndarík og teiknað síðan ég man eftir mér.”

Í grunnskóla lág leiðin hennar Sædísar í allt aðra átt. „Ég var mikið í íþróttum, í fótbolta og taekwondo, sem mér fannst mjög gaman og það var leiðin sem ég ætlaði að fara. Síðan greindist ég með vefjagigt mjög ung og gat ekki lengur verið í íþróttum. Þá varð ég þunglynd og lokaði mig af. Það sem fótboltinn gaf mér var ómetanlegt, mikil hamingja, lífsgleði og dýrmætur félagsskapur sem fylgdi því að vera í íþróttum. Mér fannst þetta svo ógeðslega gaman og síðan þegar það var tekið í burtu vissi ég ekki hvað ég átti að gera.”

Á þessum tíma lokaði Sædís sig mikið af og fór aftur að teikna. „Ég fann hvað mér fannst gaman að teikna og fór að hugsa hvað ég gæti búið til og hvert hugmyndaflugið gæti tekið mig.” Á svipuðum tíma kviknaði áhugi Sædísar á húðflúrum. „Mig langaði að gera þetta en sá ekki fram á að ég myndi fara að flúra því mér fannst þetta fjarlægt og erfitt að byrja að læra,” segir Sædís.

Sædís ákvað eftir grunnskóla að hún ætlaði að vera myndlistarkona og fór í Fjölbrautaskólann í Garðabæ að læra myndlist og á námskeið í Myndlistarskólanum í Reykjavík. „Ég lærði helling þar en þetta var samt ekki það sem ég var að leita að, mér fannst þetta ekki eins gaman og ég hélt, og hætti í skólanum í Covid vorið 2020.”

Sama ár og Sædís hætti í skólanum byrjaði boltinn að rúlla. „Á afmælisdeginum mínum þegar ég varð 19 ára fór ég í tattú. Það var mikil skyndiákvörðun en þar hitti ég konu sem var að stofna sína eigin stofu. Ég sagði henni frá því að mig langaði að byrja að læra að flúra.” Konan fylgdi Sædísi á samfélagsmiðlum, sá teikningarnar hennar og bauð henni lærlingsstöðu á nýju stofunni sinni. „Þá var ég ekki einu sinni búin að halda á nál eða gera eitt tattú.” Það var ótrúlega spennandi tækifæri fyrir mig. En þetta var árið 2020 og Covid flækti þetta allt.

Sædís flutti aftur austur sumarið 2020 til þess að vinna. „Áður en ég fór austur keypti ég nálar og blek. Sumarið endaði síðan þannig að ég var að flúra alla vini mína og þannig kynntist ég kærastanum mínum.”

Sædís prófaði sig áfram heima vegna þess að hún gat ekki byrjað að vinna á stofu út af Covid. Sumarið 2021 fjárfesti Sædís í sinni eigin tattúvél og birti myndir af flúrunum sínum á samfélagsmiðlum. Eigandi annarar stofu sá flúrin hennar Sædísar á samfélagsmiðlum og bauð henni lærlingsstöðu. „Ég sá að þessi stofa hentaði mér betur og þetta var líka stofan þar sem ég fékk mér fyrsta flúrið mitt og mér fannst það fallegt.” Í ágúst 2021 flutti Sædís til Reykjavíkur og byrjaði sem lærlingur á stofunni sem hún er enn þá á í dag. Stofan heitir Moonstone og Sædís er búin að vinna þar í rúmt ár. „Ég hef séð stofuna vaxa og ég er búin að vaxa með henni. Ég er loksins byrjuð að vinna við þetta sem fullt starf,” segir Sædís.

„Ég er loksins búin að finna taktinn og hef trú á mér. Ferlið er búið að vera erfitt og maður þarf að hafa mikla þolinmæði en þetta er mjög gaman og ég er ánægð að ég fór þessa leið.”

Sædís segir að það skemmtilegasta við vinnuna sé fólkið sem hún vinnur með og allt fólkið sem hún kynnist. „Þetta eru skemmtilegir tímar sem ég á með þessu fólki, fæ kannski 2-3 tíma með þeim og síðan hitti ég þau kannski aldrei aftur. Ég fæ að kynnast fólki svo vel, ég fæ kjarnann af þessari manneskju í einhverja tíma en síðan mun ég kannski aldrei hitta þau aftur.“

Mynd: Gunnar Ingi Jones

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.