Úr sóttkví og inn í hljóðver

Tríóð Ómland sendi fyrir helgi frá sér sitt fyrsta lag „Geymi mínar nætur.“ Fyrir sveitinni fara Rósa Björg Ómarsdóttir, sem ættuð er frá Norðfirði og Þórdís Imsland frá Hornafirði. Þær byrjuðu að semja saman lög þegar þær lentu saman í sóttkví í vor.

„Við Þórdís kynntumst í annarri þáttaröð The Voice fyrir um þremur árum. Við höfum síðan fylgst að í bransanum og sungið bakraddir hvor fyrir aðra.

Hún býr hjá mér þannig við enduðum saman í sóttkví í vor. Við fórum að semja lög þegar okkur fór að leiðast. Fyrst sömdum við lag um hvernig væri að vera í sóttkví en síðan þróaðist grínið yfir í alvöru.

Innan um lög voru lið sem okkur fannst flott þannig við settumst niður og ákváðum að gera þetta í alvöru. Við byrjuðum strax á að tala við Helga Reyni Jónsson, sem við kynntumst í The Voice og hann spilar á öll hljóðfæri og útsetur. Við þrjú eigum öll jafnt í lögunum.

Um leið og við sluppum úr sóttkvínni fórum við inn í hljóðver og höfum verið að taka upp síðan,“ segir Rósa Björg. Móðir hennar ólst upp á Norðfirði fyrstu árin og þar á hún allmikið af skyldmennum. Þórdís kemur á móti sem fyrr segir frá Hornafirði.

Lagið „Geymi mínar nætur fyrir þig“ kom út á streymisveitum á föstudag en myndbandið nokkrum dögum síðar. Annað lag þríeykisins er tilbúið og kemur út fyrir jól. Stefnan er sett á stuttskífu með 5-6 lögum snemma á næsta ári.

Þórdís segir stefnuna setta á að fylgja henni eftir með tónleikum, meðal annars fyrir vini og vandamenn eystra, en Ómland bíður þess hvað verða vill með samkomutakmarkanir. Þórdís Björg starfar sem söngkennari og söngkona en takmarkanirnar hafa haft mikil áhrif á hana. „Ég held að margir hafi fundið fyrir því að það er ekkert öryggisnet sem grípur tónlistarfólk.“

Rósa Björg hefur þó ekki alltaf starfað við tónlistina. Hún er menntaður hjúkrunarfræðingur og vann lengi sem slíkur. Fyrir um áratug ákvað hún þó að söðla um, fór í söngkennaranám til Danmerkur og tók þátt í The Voice til að koma sér á framfæri eftir heimkomuna.

En þegar ekki er hægt að kenna og erfitt að flytja lifandi tónlist gefst tækifærið til að skapa. „Í amstrinu gleymir maður að búa til og skapa. Þótt við töpuðum tónleikum græddum við tíma til þess að semja, taka upp, nostra við lögin og koma þeim í spilun.“

Hún vonast þó til að takmörkunum verði aflétt sem fyrst þannig þær geti flutt sungið lögin sín fyrir fólk. „Maður elskar að syngja og spila tónlist en ég hef aldrei flutt mína eigin tónlist fyrir áhorfendur, bara túlkað annarra manna lög. Ég er spennt fyrir að vita hvernig það er að standa fyrir framan aðra og segja þetta er ég.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.