Vegglistaverk innblásið af íslenska skjaldarmerkinu og Andy Warhol

Nýtt listaverk Bandaríkjamannsins Marc Alexander, málað á brúarvegg á Fáskrúðsfirði, var afhjúpað þar á Frönskum dögum á laugardag. Innblástur verksins kemur úr ýmsum áttum, meðal annars frá íslenska skjaldarmerkinu.

„Þetta er hugmynd sem ég hef haft í nokkurn tíma. Upphaflega hönnunin sem ég sendi sveitarfélaginu var fyrir stærri flöt. Síðan völdum við staðinn og þá þurfti ég að sníða hana að minni fleti,“ segir Marc.

Hann hefur verið búið á Fáskrúðsfirði og á þeim tíma haldið nokkrar sýningar, meðal annars í Neskaupstað í fyrra og á Breiðdalsvík í sumar. Verkið á Fáskrúðsfirði er nokkuð frábrugðið hans fyrri verkum.

„Ég hef yfirleitt unnið með klippiverk og oft með texta. Það sem svipar til klippimyndanna eru táknmyndirnar sem ég nota í þessu verki. Ég horfði á heimildamynd um Andy Warhol og hann notaði mikið af táknum og vísunum í sínum verkum. Ég býst við að það hafi haft áhrif á mig,“ segir Marc.

Grunnhönnun verksins er íslenska skjaldarmerkið og byggðamerki Fjarðabyggðar. Þar hafa þó orðið nokkrar breytingar. Í stað bergrisans er kominn Frakki sem vísar til tengsla landsins við Fáskrúðsfjörð. Sá er með rauðan hring um höfuðið sem gefur honum yfirbragð dýrlings, en slíkur hringur er einnig sólin í byggðamerki Fjarðabyggðar. Þá hefur griðungurinn vikið fyrir hreindýri og gammurinn og drekinn fyrir þorskum.

Verkið er á brú, skammt frá Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði þar sem Marc vinnur. Hann segist hafa notið aðstoðar samstarfsfólks með listræna hæfileika við gerð verksins auk unglinga úr skapandi sumarstörfum. Það hefur skipt máli því ekki hefur alltaf viðrað til málunar útilistaverka í sumar.

„Það er frábært að hafa fengið þessa hjálp því veðrið hefur ekki alltaf verið gott. Við höfum því þurft að nota góðu dagana eins og kostur er. Ég hef tvisvar fengið kvef eftir að hafa staðið úti í nepjunni.“

Málverk á brúm eru meðal einkenna Fáskrúðsfjarðar. Mörg þeirra eru komin nokkuð til ára sinna og farin að láta á sjá. Hugmyndir eru uppi um að reyna að skerpa á þeim. „Ég skoðaði þau með unglingunum í sumar en okkur vannst ekki tími til að laga þau í sumar. Við erum þó byrjuð á einum stað, náðum að teikna útlínurnar, þannig að vonandi tekst okkur á næstunni á mála þessi verk aftur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.