Verðlaunaferð til Kaupmannahafnar
8. bekkur Grunnskóla Reyðarfjarðar bar sigur úr býtum í samkeppninni Reyklaus bekkur 2009 sem haldin er ár hvert á vegum Lýðheilsustöðvar. Verkefni þeirra samanstóð af veggmyndum, borðspili sem heitir No smoking, bókamerkjum og vinnustaðafræðslu. Vinnustaðafræðslan fór fram í matsal Alcoa þar sem krakkarnir sýndu veggmyndir sínar, fluttu fyrirlestra með glærusýningum og dreifðu bókamerkjum.
Verðlaunin eru þriggja daga ferð til Kaupmannahafnar fyrir bekkinn og umsjónarkennara hans. Flogið verður til Kaupmannahafnar á þriðjudag í næstu viku og á dagskránni er meðal annars ferð í Tívoli og dýragarðinn.