„Við vitum reyndar ekkert hvað við erum að gera“
„Við eru að loka eftir sumarið og vildum hafa svona smá húllumhæ vegna þess,“ segir Eiður Ragnarsson hjá ferðaþjónustunni Bragðavöllum í Hamarsfirði, en þar verður slegið upp „hlöðusvari“ annað kvöld. Eiður er í yfirheyrslu vikunnar.
Eiður og bróðir hans, Ingi, reka ferðaþjónustuna á Bragðavöllumi. Hún samanstendur af smáhúsum auk þess sem þeir hafa endurbyggt og innréttað gömlu hlöðuna og fjósið sem nú er veitingastaður sem rúmar allt að hundrað manns.
„Það eru fjölskyldur okkar Inga sem standa að þessari uppbyggingu og rekstri, við bræður höfum af þessu atvinnu þó svo að konurnar okkar, Steinunn og Jóhanna, vinni annarsstaðar. Í sumar vorum við með allt að sex starfsmenn en það verður eitthvað færra í vetur. Gistingin verður opin allt árið en fyrst um sinn mun veitingahúsið einungis vera opið á sumrin,“ segir Eiður.
„Þetta fór rólega af stað en svo hefur bara verið ágætt rennirí finnst okkur. Við vitum reyndar ekkert hvað við erum að gera en þetta reddast auðvitað alltaf. Ég held að viðskiptavinir okkar í sumar hafi farið héðan nokkuð sáttir og það er jú það sem við viljum sjá,“ segir Eiður.
Eiður segir að ákveðið hafi verið að skella í barsvar í sumarlok, eða hlöðusvari í þeirra tilfelli þar sem gleðin fer í gömlu hlöðunni. „Fólk má eiga vona á léttum, erfiðum og á köflum furðulegum spurningum. Flestar munu þær snúast um svæðið hér umhverfis okkur, sveitina og allt sem henni tengist, vorum reyndar búnir að lofa einungis spurningum úr Bændablaðinu og Búnaðarblaðinu Frey, en við sjáum til.“
Mega Austfirðingar eiga von á fleiri viðburðum á Bragðavöllum í vetur? „Við ætlum að hafa opið einhverjar helgar í haust, en það er ekki komin full dagskrá ennþá, en hún er í vinnslu og birtist von bráðar. Við vonum bara að þetta fái góðar undirtektir, þó svo að það sé örlítill rúntur hér inn að Bragðavöllum,“ segir Eiður, en hlöðusvarið hefst klukkan 21:00 á laugardagskvöld.
Fullt nafn: Eiður Ragnarsson.
Aldur: 46.
Starf: Allt mögulegt og ómögulegt hjá Ferðaþjónustunni Bragðavöllum.
Maki: Steinunn Þórarinsdóttir.
Börn: Þórarinn, Alma og Bergey.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst yngri? Bóndi.
Hver er þinn helsti kostur? Endalaust jákvæður.
Hver er þinn helsti ókostur? Óskipulagður og endalaust jákvæður.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Smjörvi, mjólk og ostur.
Um hvað geta allir í heiminum verið sammála? Að himinnin er blár.
Hvaða einstakling finnst þér þú þekkja, þótt þú hafir aldrei hitt hann? Fjalla Eyvind.
Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í heiminum á þínum líftíma? Hvað það er orðið auðvelt og í raun ódýrt að ferðast heimshorna á milli og reyndar margt fleira, en þetta er ansi snúin spurning.
Besta bók sem þú hefur lesið? Fárviðri eftir Jan Terlouw.
Hvað bræðir þig? Ungabörn eða bara krakkar yfirleitt, þau eru svo blátt áfram og heiðarleg.
Hvernig er tónlistarsmekkurinn þinn? Misjafn. Allt milli himins og jarðar, ja eða flest.
Settir þú þér áramótaheit? Nei.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Þær eru margar og ég vil ekki gera upp á milli með því að nefna bara suma.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Hungur á ekki að þekkjast myndi útrýma því.
Ertu góður kokkur og þá – hver er þinn „sérréttur“? Er slarkfær, hef gaman af því að elda. Ætli hreindýrafille og það sem því fylgir sé ekki minn sérréttur. Að minnsta kosti segja börnin það.
Hvað ertu með í vösunum? 1.000.- króna seðil, lesgleraugu og nafnspjald frá viðskiptvin.
Trúir þú á líf eftir dauðann? Stundum, er eins og Ragnar Reykás þegar kemur að því, skipti reglulega um skoðun.
Hverjum líkist þú mest? Það verða aðrir að meta.
Í hverju finnst þér þú vera betri en aðrir? Sofa! Ég vakna aldrei við neitt, gæti sofið af mér heimsstyrjöld.
Ef þú þyrftir að eyða 100 þúsund kalli á klukkutíma, í hvaða verslun færirðu? ÁTVR.
Hvað ætlar þú að gera um helgina? Spyrja fólk spjörunum úr (ekki bókstaflega þó). Og ditta að vinnubílnum, eftir að við bræður höfum gengið frá í Hlöðunni.