Vilja blása lífi í gömlu heimasíðu Djúpavogs
Köll eru eftir því á Djúpavogi að endurvekja gömlu heimasíðu bæjarsins en sú var tekin úr umferð þegar Djúpavogur sameinaðist þremur öðrum sveitarfélögum undir hatti Múlaþings.
Vefurinn djupivogur.is var löngum helsta upplýsinga- og skilaboðaskjóða íbúa á Djúpavogi og nágrenni og vefurinn ætíð vel sóttur. Þó hann sé enn uppi hefur hann ekki verið uppfærður í tæp tvö ár en því vilja ýmsir breyta. Þar á meðal tiltölulega nýstofnaður samráðshópur um að taka því rólega og njóta lífsins, öðru nafni Cittaslow, en þeim hópi er ætlað að skipuleggja og halda betur utan um viðburði tengdum þessari merkilegu hreyfingu sem Djúpavogur hefur haft aðild að um tíu ára skeið. Cittaslow gengur í grunninn út á að auka lífsgæði og ánægju með því að heiðra sérstöðu, una náttúrunni og taka lífinu öllu með ró.
Ein úr samráðshópnum, Gréta Mjöll Samúelsdóttir, segir hugmyndina vissulega hafa verið viðraða og fengið undirtektir en engin ákvörðun hafi enn verið tekin.
„Það kannski erfitt að útskýra en gamli Djúpavogsvefurinn var einhvern veginn miklu stærri og mikilvægari fyrir okkur hér en kannski vefir stærri bæjarfélaga. Þarna settum við gjarnan inn skemmtiefni og hitt og þetta sem á lítið erindi inn á Djúpavogsvef Múlaþings. Svo það kom upp hugmyndin að koma vefnum í gang á ný og þá ekki síst til að koma á framfæri fregnum um til dæmis Cittaslow meðal íbúanna sem aftur kannski aðrir en við hafa gagn af.“