Vitnað til Gústu á Refsstað á Alþingi á kvennafrídaginn
Ýmsar fyrirmyndir í jafnréttisbaráttunni, jafnt í fortíð, nútíð, veruleika sem skáldsagnaheimi, voru austfirskum þingmönnum ofarlega í huga í ræðum sem þeir fluttu á Alþingi í tilefni kvennafrídagsins í síðustu viku. Þar komu við sögu Ágústa Þorkelsdóttir, bóndi á Refsstað í Vopnafirði og Píla úr Hvolpasveitinni.Vopnfirski þingmaðurinn Þórunn Egilsdóttir, sem situr á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn, nýtti tækifærið í umræðum um störf þingsins á kvennafrídaginn til að minnast á bæði konur og karla sem haft hefðu forustu um að jafna stöðu kynjanna í gegnum tíðina.
Þórunn minntist meðal annars á Pál Pétursson, fyrrum þingmann flokksins, sem var ráðherra þegar réttur feðra og mæðra til fæðingarorlofs var jafnaður árið 2000.
Megum ekki sætta okkur við launamun kynjanna
Hún rifjaði einnig upp Rannveigu Þorsteinsdóttur sem hefði fyrst kvenna verið kosin á þing fyrir flokkinn árið 1949. Þórunn sagði hana hafa barist fyrir réttarstöðu kvenna, skattamálum og húsnæðismálum auk þess að vera óþreytandi við að hvetja konur til starfa í félagsmálum.
Slíkar fyrirmyndir eru mikilvægar að mati Þórunnar. „Þökkum fyrir einstaklinga eins og Rannveigu, Bríeti [Bjarnhéðinsdóttur], Ingibjörgu [Einarsdóttur] og Gústu á Refsstað og alla sem rutt hafa brautina.“ Þar vísaði Þórunn til sveitunga síns úr Vopnafirði, Ágústu Þorkelsdóttur, sem árið 2011 fékk Fálkaorðuna fyrir margvísleg störf að félagsmálum.
„Þrátt fyrir allt er launamunur kynjanna staðreynd, staðreynd sem við megum ekki sætta okkur við því að öll hljótum við að bera þá ósk í brjósti að synir okkar og dætur standi jafnfætis,“ sagði Þórunn að lokum.
Af hverju fær Píla ekki að vinna verkefnin?
Þórunn var ekki eini austfirski þingmaðurinn sem tók þátt í umræðunum því það gerði einnig Eskfirðingurinn María Hjálmarsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar.
María er móðir tvíbura, stráks og stelpu, og sagði sögu af því að fjögurra ára gömul hefði dóttir hennar gert athugasemdir við bækurnar sem lesnar voru á kvöldin.
„Þar heyrðust setningar á borð við: Af hverju eru það bara strákar sem renna sér hratt og klifra hátt? Af hverju eru stelpur aldrei sterkastar og af hverju fær Píla í Hvolpasveitinni aldrei að vinna verkefnin? Þessar spurningar komu beint frá hjartanu.“ Athugasemdirnar urðu til þess að strákurinn tók líka eftir ójafnvæginu og varð að sögn Maríu hneykslaður.
Laga verður gjánna milli fæðingarorlofs og leikskóla
María notaði tækifærið til að vekja máls á þeirri ólaunuðu vinnu sem konur vinni af hendi. „Staðreyndin er enn sú að kvennastörf eru minna metin enn þann dag í dag. Konur vinna auk þess 70% ólaunaðra starfa og eru líklegri til að vera lengur heima en karlar í fæðingarorlofi, sem skýrist að miklu leyti af gjá milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Þó að það verkefni sé á könnu sveitarfélaganna tel ég mikilvægt að ríkið stigi með enn meiri þunga og veiti aukið fjármagn til að hægt sé að leysa málið og bæta þannig kjör kvenna og þjóðarinnar allrar.“
Ágústa Þorkelsdóttir. Mynd: GG