Austurlandsskrifstofa Verslunarmannafélags Reykjavíkur flutti sig á dögunum um set á Egilsstöðum og opnaði nýja og glæsilega skrifstofu að Kaupvangi3b. Kristín María Björnsdóttir er í forsvari fyrir VR á Austurlandi. Í móttöku sem efnt var til fyrir félagsmenn í tilefni af flutningunum sagði hún vinnuaðstöðu alla verða mun betri í nýja húsnæðinu en verið hefur.
Tillaga um
að leggja inn aðildarumsókn hjá Evrópusambandinu var í dag samþykkt á Alþingi með 33 atkvæðum gegn 28 en tveir þingmenn sátu
hjá. Í kjölfarið fögnuðu menn ýmist eða hörmuðu niðurstöðuna, líkt og þessi
íbúi á Egilsstöðum, sem flaggaði íslenska fánanum í hálfa stöng til að sýna
vonbrigði sín.
Ellefu félagar úr Vinstrihreyfingunni - grænu framboði í
Norðausturkjördæmi hafa sent formanni flokksins, Steingrími J.
Sigfússyni, opið bréf
þar sem þeir skora á hann að greiða ekki atkvæði
með frumvarpi um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Listahátíð ungs fólks á Austurlandi stendur nú sem hæst á Seyðisfirði og er verulega líflegt í bænum. Í vikunni hafa gengið á fjölmargir viðburðir á vegum hátíðarinnar, í höfn komið tvö skemmtiferðaskip og einnig Norræna með alla sína farþegafjöld að vanda. Í dag opna fjórar sýningar samhliða í bænum; ljósmyndasýning LungA 2000-2009, ,,We Go Places" í gamla bakaríinu, ,,Lífsmörk" í gömlu bókabúðinni og ljósmyndasýning Helga Snæs á Vesturvegg Skaftfells. Hönnunarsýning Lunga verður í kvöld í Strandarsíldarskemmu. Meðal þátttakenda í Lunga eru allir sumarstarfsmenn ungmennavinnuflokks Landsvirkjunar í Fljótsdalsstöð, en þeir eru þar í boði fyrirtækisins og halda launum á meðan.
Hreindýraveiðar hófust í gær og fyrstu fréttir af veiði voru af tarfi sem felldur var í landi Þuríðarstaða í Fljótsdal um kaffileytið í gær. Þá var tarfur skotinn í Skriðdal nokkru síðar og annar í Hjaltastaðarþinghánni snemma í gærkvöld. Jóhann G. Gunnarsson hjá veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar telur að þrettán veiðimenn hafi verið við veiðar í gær. Veður til veiða er heldur önugt í dag, rigning, vindur, um tíu stiga hiti og skyggni takmarkað. Veiðimenn láta það þó væntanlega ekki aftra sér frá að halda galvaskir til veiða.
Hreindýraveiðitímabilið hófst í dag. Veiða má tarfa til 1. ágúst en eftir það einnig kýr og kálfa.
Tarfaveiðarnar út júlí eru skilyrtar á þann hátt að einungis má veiða tarfa sem eru ekki nálægt hreinkúm. Þá eru veturgamlir tarfar friðaðir. Veiða má 1.333 dýr á vertíðinni. 3.266 umsóknir um veiðileyfi bárust Umhverfisstofnun. Leiðsögumenn fóru með veiðimenn inn á veiðisvæði strax í nótt en ekki er vitað til að dýr hafi enn verið fellt. Veiðimenn eru hvattir til að nýta veiðitímabilið allt, en geyma ekki veiðar fram á síðasta dag. Veiðitímanum lýkur 15. september.