Hinn 18. maí voru liðin 120 ár frá því Gunnar Gunnarsson skáld fæddist á Valþjófsstað í Fljótsdal. Af því tilefni hafa Útvarpið, Gunnarsstofnun og erfingjar Magnúsar Ásgeirssonar þýðanda tekið höndum saman um að gera eitt af þekktustu verkum Gunnars aðgengilegt á hlaðvarpi RUV.
Málstofa um byggðamál stendur nú yfir í Gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík og aðalfundur Vaxtarsamnings Austurlands hefst þar kl. 16. Aðalfundur Þróunarfélags Austurlands var haldinn á sama stað í morgun. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa voru veitt hvatningarverðlaun Þróunarfélagsins, en ekki hafa borist upplýsingar um til hvers þau fóru í ár.
Í málstofu um byggðamál ræddi Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar um sjónarmið sveitarfélaga við mótun og framkvæmd byggðastefnu. Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps, fjallaði um framtíðarsýn Vaxtarsamnings Austurlands og Jónína Rós Guðmundsdóttir, nýr þingmaður Austfirðinga, velti upp stöðu Austurlands í framtíðinni. Hafliði H. Hafliðason, verkefnisstjóri hjá Þróunarfélaginu stýrði málstofunni.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu AFLs Starfsgreinafélags á hendur Landsvaka um að fá í hendur yfirlit eigna peningamarkaðssjóðs gamla Landsbankans tímabilið september til október 2008. Landsvaki fór þá með sjóðinn. Héraðsdómur bar fyrir sig formgalla í frávísun sinni og telur félagið dóminn þannig víkja sér undan því að taka afstöðu í flóknu máli. AFL hefur áfrýjað málinu til Hæstaréttar.
Slysavarnafélagið Landsbjörg lýsir þungum áhyggjum af þeim niðurskurði á fjármagni sem ætlað er til reksturs stofnana er sinna öryggis- löggæslu- og björgunarmálum á landinu. Ætla má að slíkur niðurskurður muni valda því að leitað verði í auknu mæli til aðildareininga félagsins sem reknar eru af sjálfsaflafé og hafa orðið fyrir verulegum samdrætti á tekjum í kjölfar þess efnahagsástands er ríkir. Þetta kom fram í ályktun sem landsþing félagsins sendi frá sér um síðustu helgi.
Ungur hnúfubakur skemmti Seyðfirðingum í fjarðarbotninum í dag. Hann rann grunnt í og sýndi glæsileg sporðtök þegar hann tók djúpkafið.
Björgunarsveitarmenn úr Ísólfi fóru á báti sveitarinnar til móts við hnúbbann. Þeir skemmtu sér vel við blástur og bægslagang og tóku nokkrar myndir af gestinum.
,,Núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur fært samfélagi og sjávarútvegi á Íslandi margvíslegan ávinning og leitt til umbóta í greininni. Sjávarútvegurinn er samkeppnisfær á alþjóðlegum mörkuðum og aðstæður í greininni eru fyrirsjáanlegri, starfsöryggi mun meira og störf betur launuð en fyrir daga þess. Fjarðabyggð hefur byggst upp með öflugum sjávarútvegi og þar erurekin sterk sjávarútvegsfyrirtæki, sem m.a. hafa aflað þjóðinni veiðireynslu á nýjum tegundum eins og kolmunna og norsk-íslenskri síld. Fyrirtækin hafa lagað sig að því umhverfi sem þeim var búið með núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, þróað vinnslueiningar í landi og aðlagað skipastól sinn að þeim heimildum sem þau hafa úr að spila,“ segir í ályktun sem bæjarráð Fjarðabyggðar sendi frá sér í dag.
Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum hefur ákveðið að styrkja Starfsendurhæfingu Austurlands um 70.000 Bandaríkjadali, eða um 8,9 milljónir króna á tveggja ára tímabili. Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, afhenti fyrri hluta styrksins, 35.000 Bandaríkjadali í dag.