Formannsskipti hafa orðið hjá íþróttafélaginu Hetti. Davíð Þór Sigurðarson tók í lok apríl við starfinu af Helga Sigurðssyni tannlækni, sem farið hefur fyrir félaginu undanfarin ár. Davíð Þór er 26 ára gamall, viðskiptafræðingur og starfar sem sérfræðingur í fjármálateymi fyrir steypuskála Alcoa Fjarðaáls. Hann er fæddur á Egilsstöðum, uppalinn á Seyðisfirði og lék lengi knattspyrnu með Huginn. Hann er búsettur á Egilsstöðum og kvæntur Eddu Ósk Gísladóttur. Þau eiga son á öðru ári. Davíð Þór sat áður í stjórn Hattar í eitt ár.
Lögreglan í umdæmi sýslumannsins á Eskifirði gerði í gær upptækar á annan tug hassplantna á bænum Karlsstöðum á Berufjarðarströnd. Plöntunar voru á forræktunarstigi. Lögreglan á Eskifirði segist hafa haft veður af ræktuninni um tíma. Farið var á bæinn í gær í samvinnu við fíkniefnadeildarmenn frá Lögreglu höfuðborgarsvæðisins, enda ekki um heimafólk að ræða. Svo virðist sem einhverjir hafi leigt bæinn eða fengið að láni, en það er óljóst. Lögregla hefur yfirheyrt fleiri en einn sem eru taldir viðriðnir ræktunina. Samkvæmt heimildum Austurgluggans var bærinn fullur af plöntum og búið að rífa allt innan úr honum og átti augljóslega að hefja þar umfangsmikla ræktun.
Fjallað var um læknisþjónustu í Fjarðabyggð á fundi bæjarráðs sveitarfélagsins í gær, 5. maí. Komu til fundarins undir þessum lið þau Einar Rafn Haraldsson forstjóri, Stefán Þórarinsson framkvæmdastjóri lækninga og Lilja Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar, frá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Guðríður Þorsteinsdóttir lögfræðingur heilbrigðisráðuneytisins sat einnig fundinn.Að því er fram kemur í fundargerð var farið yfir stöðu mála og má leiða líkum að því að fjallað hafi verið um stöðu yfirlæknis Heilsugæslu Fjarðabyggðar.
Farfuglar í hreiðurgerð sungu hástöfum í nokkurra sentimetra nýföllnum snjó víða um Austurland í morgun. Ástand vega er samkvæmt því; Öxi og Mjóafjarðarheiði og Hellisheiði ófærar, verið að moka á Vatnsskarði og Vopnafjarðarheiði, krapi og snjór á Sandvíkurheiði og Fagradal og hálkublettir og krap í Oddsskarði og á Fjarðarheiði. Greiðfært er með ströndinni. Snjóþekja og éljagangur er á Mývatnsheiði og þæfingsfærð á Mývatnsöræfum. Gert er ráð fyrir rigningu eða slyddu í dag, 2 til 7 gráðu hita og helst að birti upp á suðausturlandi. Á morgun gerir spá ráð fyrir að bjart verði með köflum og kaldara, með vindi úr norðvestri.
Í Austurglugga þessarar viku er að vanda margt forvitnilegt. Á forsíðu er viðtal við menn á Eskifirði sem vilja koma upp minningargrafreit fyrir ástvini sem hafið hefur tekið. Ítarleg úttekt er gerð á núverandi Vaxtarsamningi Austurlands, en honum lýkur undir áramót. Auk frétta og aðsendra greina eru svo umfjallanir og myndir frá Þjóðleik, Öldungablakinu og List án landamæra. Allir þurfa að eignast Austurgluggann, sem fæst á betri blaðsölustöðum.
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar sendi frá sér ályktun í kvöld þar sem skorað er á heilbrigðisráðherra að hlutast til um mál yfirlæknis heilsugæslunnar í sveitarfélaginu. „Traust og góð heilsugæsla er meðal þeirra grundvallarlífsgæða sem sóst er eftir í hverju samfélagi. Fátt skiptir heimili jafn miklu máli og góð og persónuleg þjónusta heimilislæknis. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar lýsir áhyggjum af þeirri stöðu sem við er að glíma í heilsugæslu innan sveitarfélagsins og því óefni sem við blasir á Eskifirði.
Bandaríska drykkjavörufyrirtækið Scissortail Beverages hefur sent Fjarðabyggð fyrirspurn vegna mögulegrar starfsemi fyrirtækisins á Reyðarfirði. Bæjarráð tók málið fyrir á fundi sínum í gær. Scissortail Beverages dreifir og selur drykkjarvöru og þar með talið vatn. Fyrirtækið auglýsir á veraldarvefnum til sölu íslenskt vatn sem flutt verði ýmist frá Reyðarfirði eða Reykjavík og er lágmarkspöntun 6340 gallon og vatnið flutt út í stálgeymum eða svokallaðri vatnsblöðru sem tekur tuttugu og fjögur þúsund lítra, eða lágmarkspöntun.