Það rigndi óskaplega sums staðar á Austurlandi í nótt og varð vart við þrumur og eldingar þegar klukkan nálgaðist 01. Slíkt er heldur sjaldgæft hér um slóðir. Heldur er að létta til og búist við ágætu veðri með 15-23 stiga hita í dag þó hangi í súld með köflum. Spáð er rigningu aftur í nótt og fram á þriðjudag, en þá er sú gula víst væntanleg að nýju. Hiti á að vera frá 10 upp í 18 stig næstu daga.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Mylluna ehf. til að greiða fyrrum starfsmanni fyrirtækisins tæplega 29 milljónir króna með vöxtum í bætur vegna vinnuslyss sem varð haustið 2005. Maðurinn krafðist ríflega 47 milljóna í skaðabætur.
30. júní rann út frestur til að greiða fyrir hreindýraveiðileyfi. Þeir sem ekki greiddu missa leyfið og verður þeim úthlutað til fólks sem er á biðlista eftir leyfum. Til stendur að staðfesta gild veiðileyfi í dag.
Undanfarna daga hafa Veraldarvinir unnið í Mjóafirði, meðal annars við að gera nýtt tjaldstæði við Sólbrekku. Svæðið var framræst, gerð bílastæði og tjaldsvæði þökulagt. Veraldaldarvinir hafa einnig unnið að tiltekt í Mjóafjarðarhöfn og við hús í eigu sveitarfélagsins. Tjaldsvæði eru nú í öllum sex fjörðum Fjarðabyggðar.
Rannsóknarnefnd flugslysa sendi í morgun frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að nú sé unnið að rannsókn á flugslysinu sem varð í Vopnafirði síðdegis í gær. Tveir voru í vélinni og lést annar þeirra en hinn er lífshættulega slasaður. Niðurstöður vettvangsrannsóknar benda til að Cessna 180 vélinni hafi verið flogið á rafmagnsvír með þeim afleiðingum að hún brotlenti. Vettvangsrannsókn lýkur væntanlega í dag og verður brak vélarinnar flutt suður í gámi um helgina til frekari rannsóknar.
Hópur fólks hefur tekið höndum saman um að vekja athygli á óviðunandi ástandi samgangna við Seyðisfjörð. Í því skyni er efnt til almennrar hópgöngu yfir Fjarðarheiði a.m.k. ársfjórðungslega þar til komin verða jarðgöng sem tengja Seyðfirðinga við önnur byggðarlög.
Austurglugginn er kominn út, fjölbreyttur og fróðlegur að vanda. Fjallað er meðal annars um fjölmenna gönguviku í Fjarðabyggð, nýstárlegar tónlistarsumarbúðir, fund Framtíðarinnar lifir sem haldinn var nýverið í Möðrudal, jazzhátíð JEA, minningartónleika um Helga Arngrímsson og nýja kvikmynd Steingríms Karlssonar sem tekin verður upp á Austurlandi. Þá er fótbolta vikunnar og öðrum íþróttaviðburðum gerð góð skil, auk annarra íþrótta og frétta. Austurglugginn fæst á betri blaðsölustöðum.