Tvöföld sýningaropnun verður Skaftfelli, miðstöð myndlistar á Austurlandi, á laugardag kl. 16. Þann 10. til 19. júní næstkomandi munu Hiryczuk og van Oevelen sýna sviðsettar ljósmyndir í verkefnarými Skaftfells. Sýninguna nefna þau ,,Senur fengnar að láni”, en þar fást þau við samband fólks við umhverfi sitt og sýna það í þokkafullri fjarvídd myndavélarinnar. Hiryczuk og van Oevelen búa og starfa á Seyðisfirði um þessar mundir. Sýningin opnar formlega á laugardag og um leið opnar sýning Mörtu Maríu Jónsdóttur á Vesturveggnum í Skaftfelli. Sú sýning stendur til 25. júní.
Héraðsdómur Austurlands kvað í gær upp þrjá dóma vegna ofbeldisbrota. Átján ára karlmaður var dæmdur í eins mánaðar langt skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, en hann sló annan mann hnefahöggi í andlitið á veitingastaðnum Café Kósý á Reyðarfirði í marsmánuði, með þeim afleiðingum að brotaþoli nefbrotnaði og hlaut glóðarauga á vinstra auga. Auk skilorðsbundins fangelsisdóms var ákærða gert að greiða sakarkostnað, tæpar 19.000 krónur. Héraðsdómur dæmdi einnig karlmann um tvítugt í eins og hálfs mánaðar langt skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og brot gegn valdstjórninni sem framin voru í nóvember. Maðurinn veittist að manni á skemmtistaðnum Dátanum á Akureyri og veitti hnefahögg, með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut áverka í andliti. Þá sparkaði maðurinn niður lögreglumann sem hafði afskipti af honum vegna fyrrgreinds atviks fyrir utan skemmtistaðinn. Þá dæmdi Héraðsdómur Austurlands sautján ára stúlku fyrir líkamsárás, en ákvörðun refsingar var frestað vegna ungs aldur stúlkunnar og hreins sakavottorðs. Hin ákærða réðst á konu á skemmtistaðnum Egilsbúð í Neskaupstað í febrúar, en þá var hin ákærða sextán ára gömul. Hún sló konuna hnefahögg í andlitið og nokkur högg í höfuðið, með þeim afleiðingum að sú hlaut glóðarauga á báðum augum og bólgur í andliti og höfði. Auk dómsins var ákærðu gert að greiða sakarkostnað, tæplega 106.000 krónur.
Næsta málþing Landsbyggðarinnar lifi, nú í samvinnu við Framfarafélag Fljótsdalshérað, undir kjörorðinu ,,Farsæld til framtíðar“ verður haldið á Möðrudal á Fjöllum, fimmtudaginn 11. júní kl. 15.
Undirtitill þessa þings verður ,,Virkjum landið og miðin“ þar sem hvers konar auðlindanýting og framleiðslustjórn grunnatvinnugreinanna til lands og sjávar verða meðal umræðuefna.
Með því að vinna fiskmarning og gera hann hæfan til að nota í sprautuvélar er hægt að sprauta honum inn í flök og gera marninginn að hluta af dýrari afurð um leið og magn flaka eykst. Á vefsíðu AVS, rannsóknasjóðs í sjávarútvegi, segir frá þessu verkefni sem unnið var af Matís ohf. í samstarfi við Síldarvinnsluna hf. í Neskaupstað og Iceprotein ehf.
Norræna kom til Seyðisfjarðar í morgun og siglir til baka kl. átta annað kvöld. Þetta er síðasta koma Norrænu áður en skipið skiptir yfir á sumaráætlun en þá verður Norræna alla fimmtudaga á Seyðisfirði í sumar. Skipið mun koma inn til Seyðisfjarðarhafnar kl. 09 á fimmtudagsmorgnum og sigla til baka á hádegi samdægurs.
Farþegar Norrænu taka ýmislegt með sér og meðal þess sem kom í land í morgun var þessi farangur, sem lítur út fyrir að vera krossmark.
Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, telur góðan kost að gera Djúpavog að skútuhöfn á Norður-Atlantshafi og útbúa þar einnig aðstöðu fyrir skútur í vetrarlegu. Hann hvetur ríkisvaldið til að styðja við slíkt verkefni. Pétur segir Djúpavog liggja landfræðilega vel við skútusiglingum og eftir ýmsu sé að slægjast því skútueigendur séu gjarnan sterkefnaðir ferðamenn.
Emil Thorarensen á Eskifirði gekk á fund heilbrigðisráðherra 2. júní og afhenti honum undirskriftarlista frá íbúum Fjarðabyggðar vegna málefna Heilbrigðisstofnunar Austurlands og yfirlæknis heilsugæslu Fjarðabyggðar.