Útivistartími barna og unglinga tók breytingum í gær, 1. maí. Frá þeim tíma mega börn 12 ára og yngri vera úti til klukkan 22 og unglingar 13 til 16 ára mega vera úti til miðnættis. Börn mega ekki vera á almannafæri utan fyrrgreinds tíma nema í fylgd með fullorðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Fjarðabyggð sigraði Tindastól nokkuð örugglega í gærkvöldi. Leikið var í Boganum á Akureyri. Ágúst Örn skoraði tvö mörk. Það fyrra eftir 7.mín leik. Ekki var meira skorað í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik kláruðu KFF drengir leikinn á fyrstu 20 mínútunum með öðru marki frá Gústa og svo skoraði fyrirliðinn Haukur Ingvar þriðja markið. Fjarðabyggð var annars mun sterkari aðilinn en þó áttu Stólarnir sína kafla. Úrslitaleikurinn verður í Boganum kl. 16:00 á sunnudag.
Fyrsti maí er helgaður baráttu verkafólks um heim allan fyrir mannsæmandi kjörum. Íslenskur verkalýður hefur ætíð átt á brattann að sækja og þrátt fyrir að við búum í landi velferðar og höfum það snöggtum betra hér en meirihluti mannkyns, er margur verkamaðurinn bláfátækur og berst í bökkum hvern einasta dag. Ísland er nú aftur orðið land misskiptingar og er það miður. Hverjir ættu að geta stýrt fram hjá slíkri ógæfu, ef ekki okkar litla þjóðarskúta, þar sem flest ætti að vera höndlanlegt? Það er að segja ef skynsemi og jöfnuður er leiðarhnoð þeirra sem stýra og móta framtíðarmarkmið til handa okkar litla landi.
Síðustu vikur hefur verið unnið í því að flokka og greina gögn breska jarðfræðingsins George P. L. Walker í Breiðdalssetrinu á Breiðdalsvík.Um er að ræða meðal annars gríðalegt magn af ljós- og slidesmyndum (u.þ.b 20.000 þúsund) víðs vegar að úr heiminum.
Fuglafestival er haldið á Djúpavogi og Höfn í dag. Tilgangur þess er að auka áhuga almennings á fuglaskoðun og kynna sér það fjölbreytta fuglalíf sem í boði er á þessu svæði. Markmiðið er að viðburður sem þessi verði árviss.
Til stendur að stofna samtök atvinnulífsins á Fljótsdalshéraði. Markmiðið með samtökunum verður að veita sveitarfélaginu aðhald auk þess sem þeim er ætlað að efla atvinnulífið. Starfshópur hefur unnið að undirbúningi. Sveitarfélagið mun kosta einn starfsmann fyrir samtökin. Stofnfundurinn verður haldinn í maí og á hann verða atvinnurekendur á Héraði boðaðir.
Í gær fór fram Fjarðaálsmót í 5. flokki drengja og stúlkna. Mótið fór hið besta fram og stóðu allir sig með sóma; keppendur, þjálfarar, dómarar og áhorfendur. Fjórði flokkur drengja og stúlkna keppir í dag.