,,Menn mega vara sig á að reka ekki hæfileikafólkið þrátt fyrir samdrátt, því hæfileikar eru verðmætasta eign okkar í kreppunni,“ segir Þorsteinn Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hann fjallaði um tækifæri í nýsköpun á Austurlandi í erindi á Egilsstöðum fyrir skömmu. Þorsteinn segir áhættufælni ekki eiga við á þessum tímum því áhætta sé drifkraftur. Vöruþróun megi ekki stöðvast því kreppan taki enda og lífið haldi áfram. Hann segir heldur ekki mega slaka á kröfum í umhverfismati þrátt fyrir tilhneygingu til að gefa lausan tauminn í þeim efnum. Útrásin þurfi að halda áfram og nýsköpun að vera lykilmarkmið.
Völundarsmiður og óforbetranlegur áhugamaður um ökutæki frá því fyrir 1955. Er á síðustu fimmtán árum eða svo búinn að gera upp hátt í tug gamalla traktora, amerískar og þýskar glæsikerrur, nokkra hertrukka og vörubíla. Hann á sér nú þann draum heitastan að gera gamalt mótorhjól í stand. Það er NSU hjól, ´36 módel og vantar bara í það vélina.
Í ár eru liðin rétt sextíu ár frá því fyrstu Ferguson-dráttarvélrnar komu til Íslands. Af því tilefni öðrum fremur hefur Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri tekið saman bókina ...og svo kom Ferguson, með aðstoð fjölda heimildarmanna. Hún kemur út 18. júlí hjá bókaútgáfunni Uppheimum á Akranesi. Bókin er gefin út með stuðningi Landbúnaðarsafns Íslands og rennur hluti andvirðis bókarinnar til safnsins.
Annarrar deildar lið Hattar var tíu mínútum frá því að slá
úrvalsdeildarlið Breiðabliks út úr bikarkeppni karla í knattspyrnu.
Fjarðabyggð steinlá fyrir Fylki.
Sumarhátíð UÍA er nú á lokaspretti sínum í dag. Keppnin hefur farið vel fram, þrátt fyrir köflótt veðurfar, sem nú virðist standa til bóta. Lokið er keppni í knattspyrnu, golfi og sundi og síðasti dagur frjálsíþróttakeppninnar af þremur framundan. Hefjast leikar á Vilhjálmsvelli kl. hálftíu og reiknað með að keppni ljúki um klukkan þrjú. Í dag keppa meðal annarra tíu ára og yngri sem eru að stíga sín fyrstu spor á frjálsíþróttunum. Kl. 14 byrjar opin boccia keppni, sú fyrsta með því sniði sem haldin er á Sumarhátíð. Þrír eru saman í liði og geta þeir sem vilja sett saman lið og skráð til leiks. Klukkan þrjú verður ræst 10 km bæjarhlaup frá Fjölnotahúsinu í Fellabæ. Klukkustund síðar verður 5 km skemmtiskokk í Selskógi.
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkti samhljóða á fundi sínum 2. júlí að svipta ábúendur á bænum Stórhóli í Álftafirði leyfi til búfjárhalds. Er leyfið afturkallað með þriggja mánaða fyrirvara frá og með næstu mánaðarmótum. Matvælastofnun kærði slæman aðbúnað og vanfóðrun sauðfjár í vor í kjölfar alvarlegra athugasemda frá héraðsdýralækni og búfjáreftirlitsmanni um ástand fjár, fóðrunar og húsa. Ábúendur á Stórhóli halda nokkuð á annað þúsund fjár.
Félagsmót Freyfaxa 2009 verður haldið dagana 10. og 11. júlí næstkomandi. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að mótið verði með léttu sniði þetta árið og miðist að því að þátttakendur og áhorfendur verði sem allra flestir. Ókeypis verður að venju á tjaldsvæði félagsins í Stekkhólma.