Málstofa um byggðamál stendur nú yfir í Gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík og aðalfundur Vaxtarsamnings Austurlands hefst þar kl. 16. Aðalfundur Þróunarfélags Austurlands var haldinn á sama stað í morgun. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa voru veitt hvatningarverðlaun Þróunarfélagsins, en ekki hafa borist upplýsingar um til hvers þau fóru í ár.
Í málstofu um byggðamál ræddi Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar um sjónarmið sveitarfélaga við mótun og framkvæmd byggðastefnu. Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps, fjallaði um framtíðarsýn Vaxtarsamnings Austurlands og Jónína Rós Guðmundsdóttir, nýr þingmaður Austfirðinga, velti upp stöðu Austurlands í framtíðinni. Hafliði H. Hafliðason, verkefnisstjóri hjá Þróunarfélaginu stýrði málstofunni.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu AFLs Starfsgreinafélags á hendur Landsvaka um að fá í hendur yfirlit eigna peningamarkaðssjóðs gamla Landsbankans tímabilið september til október 2008. Landsvaki fór þá með sjóðinn. Héraðsdómur bar fyrir sig formgalla í frávísun sinni og telur félagið dóminn þannig víkja sér undan því að taka afstöðu í flóknu máli. AFL hefur áfrýjað málinu til Hæstaréttar.
Fjarðabyggð tapaði fyrir Haukum, 3-1 í 1. deild karla í knattspyrnu í gær. Höttur gerði 1-1 jafntelfi gegn Víði í Garði. Einherji hefur fengið til sín fyrrverandi landsliðs- og atvinnumann í knattspyrnu. Fardögum knattspyrnumanna lauk á föstudag.
Ungur hnúfubakur skemmti Seyðfirðingum í fjarðarbotninum í dag. Hann rann grunnt í og sýndi glæsileg sporðtök þegar hann tók djúpkafið.
Björgunarsveitarmenn úr Ísólfi fóru á báti sveitarinnar til móts við hnúbbann. Þeir skemmtu sér vel við blástur og bægslagang og tóku nokkrar myndir af gestinum.
Maðurinn sem lést í bílslysi í Fáskrúðsfirði 16. maí síðastliðinn hét Guðlaugur Magni Óðinsson. Hann var til heimilis að Króksholti 6 á Fáskrúðsfirði og stundaði nám við Menntaskólann á Egilsstöðum. Guðlaugur var sautján ára gamall, fæddur 28. september 1991. Hann var ókvæntur og barnlaus. Bænastund verður haldin í Egilsstaðakirkju kl. 18 í dag og eru allir velkomnir þangað.
Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum hefur ákveðið að styrkja Starfsendurhæfingu Austurlands um 70.000 Bandaríkjadali, eða um 8,9 milljónir króna á tveggja ára tímabili. Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, afhenti fyrri hluta styrksins, 35.000 Bandaríkjadali í dag.
Álfasteinn ehf., sem átti sinn heimavöll á Borgarfirði eystri í áratugi frá 1981 en flutti vinnslu sína til Raufarhafnar fyrir fáum misserum, er í verulegum rekstrarvandræðum. Stjórn félagsins hefur sagt af sér.