Fundur um atvinnumál og nýsköpun verður haldinn á Hótel Héraði í dag klukkan þrjú. Það eru Vísindagarðurinn ehf. og atvinnumálanefnd Fljótsdalshéraðs sem boða til fundarins. Yfirskrift hans er „Hver er staðan og hverjar eru horfunar í atvinnulífinu? Hvar liggja ný atvinnutækifæri og hvernig á að skapa þau?" Tveir framsögumenn verða á fundinum; Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, fjallar um nýsköpun í atvinnulífinu og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins flytur erindi um horfurnar í atvinnulífinu.
Kór Hvammstangakirkju heldur tónleika í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði 16. maí kl. 17:00
Efnisskráin er fjölbreytt og býður bæði upp á kirkjulega og veraldlega tónlist. Stjórnandi Pálína Fanney Skúladóttir. Aðgangseyrir er enginn og allir eru hjartanlega velkomnir.
Könnun Ferðamálastofu um ferðaáform Íslendinga innanlands gefur til kynna að níu af hverjum tíu Íslendingum ætli að ferðast innanlands í sumar. Það er nokkru hærra hlutfall en fyrri kannanir Ferðamálastofu hafa sýnt.
Mánudaginn 18. maí verða liðin 120 ár frá því Gunnar Gunnarsson skáld fæddist á Valþjófsstað í Fljótsdal. Í tilefni þess bjóða Stofnun Gunnars Gunnarssonar, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn til málþings í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðu á afmælisdaginn.
Síðari dagur vorfundar Samtaka félagsmálastjóra af landinu öllu er á Egilsstöðum í dag. Er fundurinn samráðsvettvangur yfirstjórnenda velferðarþjónustu sveitarfélaganna. Meðal þess sem rætt er á fundinum eru efnahagsmálin, áhrif þeirra á velferðarþjónustu og barnavernd og endurskoðun barnaverndarlaga. Sigrún Harðardóttir, doktorsnemi í félagsráðgjöf kynnir verkefni sitt um stöðu nemenda með ADHD innan skólakerfisins og það úrræða- og þekkingarleysi í umhverfi barnanna sem kemur í veg fyrir að þau geti nýtt þroskamöguleika sína sem skyldi.
Fram hefur komið í fjölmiðlum að heilbrigðisráðherra íhugi að leggja á sérstakan sykurskatt til að hamla gegn tannskemmdum barna og unglinga. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkar hugmyndir koma fram. Á haustdögum 2004 voru slíkar hugmyndir til umræðu. Á þingi Neytendasamtakanna sem haldið var í september það ár var samþykkt svohljóðandi ályktun gegn sykurskatti:
„Þing Neytendasamtakanna hafnar hugmyndum um sérstakt gjald á sykur og gosdrykki. Sykur og sælgæti er samkvæmt könnun Hagfræðistofnunar 63% dýrara hér en að meðaltali í Evrópu. Þing Neytendasamtakanna telur að beita þurfi öðrum aðgerðum vegna mikillar sykurneyslu, m.a. fyrirbyggjandi fræðslu í skólum. Sérstök skattlagning er neyslustýring og leiðir til aukinna útgjalda heimilanna.”
Dagana 15. og 16. maí heldur Slysavarnafélagið Landsbjörg landsþing sitt í Íþróttahöllinni á Akureyri. Landþingið sækja um 500 félagar úr slysavarnadeildum og björgunarsveitum af landinu öllu. Landsþing félagsins er haldið annað hvert ár og er stærsta samkoma þess. Á þinginu er kosin ný stjórn, farið yfir reikninga og málefni þessa stóra félags, sem í eru um 18.000félagsmenn, rædd vítt og breytt.