Samgönguráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð í máli er varðar álagningu svokallaðs B-gatnagerðargjalds á fasteign í Djúpavogshreppi. Niðurstaða ráðuneytisins er að álagningin hafi verið ólögmæt og var hún því felld úr gildi.
Samráðsfundur íslenskra sveitarfélaga um efnahagsvandann fer fram 13. maí n.k. í Reykjavík. Sveitarfélög og landshlutasamtök senda að jafnaði einn til tvo fulltrúa hvert til fundarins.
Formaður sambandsins, Halldór Halldórsson, mun fara yfir stöðu mála og fjallað verður um nýjustu upplýsingar um fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Síðan verða almennar umræður þar sem fundarmenn geta skipst á skoðunum og sagt frá hvernig einstök sveitarfélög hafa verið að bregðast við rekstrarvanda og greint frá leiðum til hagræðingar í rekstri.
Ný ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttu forsætisráðherra tók við í dag. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs var kynntur í dag. Í stjórnarsáttmálanum kemur meðal annars fram varðandi stjórnkerfisumbætur að fækka eigi ráðuneytum úr 12 í 9 í áföngum. Nýtt ráðuneyti sveitastjórna, samgöngu- og byggðaþróunar fær til viðbótar við fyrri verkefni aukið vægi varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem tengist m.a. tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga, auk stefnumótunar á sviði byggðaþróunar. Í kafla stjórnarsáttmálans sem nefndur er sóknarstefna til framtíðar segir meðal annars að ríkisstjórnin muni efna til víðtæks samráðs undir forystu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar.
Hollvinasamtök Heilsugæslu Fjarðabyggðar munu eiga fund með bæjarráði Fjarðabyggðar í fyrramálið. Þá er einnig fyrirhugaður fundur Hollvinasamtakanna og yfirstjórnar Heilbrigðisstofnunar Austurlands á morgun. Til umfjöllunar verða málefni Hannesar Sigmarssonar yfirlæknis heilsugæslunnar.
Jafnframt mun heilbrigðisráðherra eiga fund með bæjarstýru Fjarðarbyggðar í vikunni.
Ályktun stjórnar Læknafélags Íslands vegna deilu yfirstjórnar HSA og yfirlæknis við stofnunina: Stjórn Læknafélags Íslands lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin á Austurlandi vegna deilna yfirstjórnar HSA og yfirlæknis við stofnunina. Það er áhyggjuefni þegar viðkvæm deiluefni eru rekin í fjölmiðlum og getur leitt til þess að torvelda leiðina að lausn vandans. Það er sérstakt áhyggjuefni þegar deila stjórnenda heilbrigðisstofnana við heilbrigðisstarfsmenn bitnar á sjúklingum.
Páll Baldursson, sveitarstjóri á Breiðdalsvík, skrifar grein á vef Breiðdalshrepps þar sem hann hvetur stjórnvöld til að hvika hvergi frá áformum sínum um að endurskoða kvótakerfið og stokka það upp.,,Breiðdalsvík er gott dæmi um byggðalag sem hefur farið illa út úr núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.Á Breiðdalsvík eru mikil verðmæti í landi til fullvinnslu á sjávarafurðum, þ.e. húsakostur, búnaður og mannafli, en engar aflaheimildir," skrifar Páll.