Heiður Vigfúsdóttir hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri hjá Vök-Baths. Þetta hefur staðið til í nokkurn tíma eins og fram hefur komið í fréttum. Hinsvegar hefur ráðning eftirmanns hennar frestast vegna COVID. Vök-Baths er lokuð þessa stundina vegna hertra sóttvarnareglna.
Rafbílaframleiðandinn Tesla áformar enn að opna hraðhleðslustöð á Egilsstöðum fyrir lok árs. Ekki fæst þó uppgefið nákvæmlega hvenær til standi að opna hana.
Umferðin á Hringveginum á Austurlandi minnkaði um tæp 37% í október miðað við sama mánuð í fyrra. Er þetta mesti samdráttur milli ára í sögunni á Austurlandi. Á landsvísu minnkaði umferðin um Hringveginn um 21,5% milli ára í október sem er einnig samdráttarmet og þrefalt meira en fyrra met milli áranna 2010 og 2011.
„Skráðum heimilisofbeldismálum fjölgar milli ára á Austurlandi. Þar gæti verið um lítillega breytta skráningu að ræða fremur en raunfjölgun. Lögreglan er þó vakandi yfir málefnum sem tengjast heimilisofbeldi þar sem aukning hefur átt sér stað í öðrum landshlutum á því sviði. Á það sérstaklega við eftir að sóttvarnarreglur vegna COVID voru teknar upp.“
Fjölskyldan á Mjóeyri rétt utan Eskifjarðar er með nokkuð óvenjulegt gæludýr eða heimilisvin en það er tófan Snæja. Hún unir hag sínum vel á staðnum og kemur reglulega í mat. Fjallað er nánar um Snæju í blaðinu Austurglugginn sem kom út í dag.