Höttur í úrvalsdeild að ári

karfa1Höttur tryggði sér sigur í 1. deild karla í körfuknattleik með sigri á liði FSu á heimavelli 94-86. Liðið leikur því í úrvalsdeild að ári.

Fyrir leikinn var FSu annað tveggja liða sem gat náð Hetti að stigum en Hetti dugði hins vegar einn sigur úr síðustu fjórum leikjum tímabilsins til að tryggja sér efsta sætið. Þeir höfðu hins vegar tapað síðustu tveimur leikjum sínum.

Gestirnir komu gríðarlega ákveðnir til leiks og náðu frumkvæði í leiknum. Eins og svo oft áður munaði mest um Collin Pryor sem var mjög erfiður og skoraði nánast hvaðan af vellinum sem er. En þótt hann væri mest áberandi var allt FSu liðið að spila virkilega vel og varnarleikur þeirra til mikillar fyrirmyndar. Gestirnir leiddu eftir fyrsta leikhluta og staðan 19-27.

Leikurinn jafnaðist nokkuð í öðrum leikhluta og munaði þar mest um frábæra innkomu leikstjórnandans Sigmars Hákonarsonar inn í lið heimamanna. Hann valdi sannarlega besta mögulega tíma til þess að stíga upp og eiga sinn besta leik í vetur. Hann skoraði 16 stig í kvöld og þar af 13 í öðrum leikhluta. Staðan í hálfleik var 42-46 og Hattarmenn farnir að sýna tennurnar.

Heimamenn náðu síðan frumkvæðinu með frábærri baráttu í þriðja leikhluta sem liðið vann 28-12. Margir leikmenn náðu að setja niður mikilvæg skot og auk þess var liðið dyggilega áfram af fjölmörgum áhorfendum.

Leikurinn er hins vegar ekki búinn fyrr en flautað er af, og alls ekki þegar verið er að leika við öflugt lið FSu. Þeir mættu grimmir til fjórða leikhluta og ætluðu sér sannarlega ekki að gefa Hattarmönnum neitt eftir. Við tók býsna kaótískur leikhluti þar sem hvorki leikmenn né dómarar náðu kannski að sýna sínar bestu hliðar. Með mikilli baráttu gerðu gestirnir leikinn spennandi til loka, en þegar upp var staðið var sigur Hattar þó aldrei í hættu. Meistaratitill 1. deildar í höfn í fyrsta sinn og liðið leikur í úrsvalsdeild í annað sinn næsta vetur, eftir níu ára bið.

Tobin Carbery var sem jafnan fyrr aðalsprautan í liði Hattar með 36 stig, 16 fráköst og 5 stoðsendingar. Óhætt að segja að Héraðsmenn geta prísað sig sæla að hafa fengið þennan dreng til liðs við sig. Af annars jöfnu liði Hattar má kannski helst nefna framlag þjálfarans, Viðars Arnar Hafsteinssonar, en reynsla hans skilaði sér vel í mikilli spennu leiksins og hann endaði með 14 stig og 7 fráköst.

Collin Pryor skoraði 36 stig og tók 14 fráköst en Ari Gylfason var með 14 stig og 9 fráköst.

Höttur á eftir einn leik í deildinni, á móti ÍA á Akranesi. FSu eiga enn eftir tvo leiki og eiga góðan möguleika á að tryggja sér annað sæti deildarinnar og heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar