Það er bara næsti leikur
Hemir Þorsteinsson, þjálfari Fjarðabyggðar, viðurkennir að staða liðsins sé svört eftir 1-3 tap á heimavelli gegn Þrótti Reykjavík í seinustu viku. Liðið er í næst neðsta sæti deildarinnar og aðeins eitt mark skilur liðið frá botnliði Njarðvíkur.
Gestirnir skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins eftir hornspyrnur áður en Sveinbjörn Jónasson minnkaði muninn með góðu skoti úr teignum. Þriðja og seinasta mark gestanna kom í lok fyrri hálfleiks.
„Það er rétt að staða okkar er ekki björt,“ sagði Heimir í samtali við Agl.is eftir leikinn. „Við hugsum ekkert lengra en um næsta leik.“
Mikil meiðsli hafa herjað á leikmenn Fjarðabyggð. Þeir Rafn Heiðdal, Haukur Ingvar Sigurbergsson og Daníel Guðmundsson eru allir frá út leiktímabilið. Í leiknum gegn Þrótti byrjaði Jóhann Benediktsson á bekknum, kom inn á og meiddist. Heimir óttast að hann verði lítið með það sem eftir er leiktíðar. Stefán Eysteinsson var ekki með gegn Þrótti en hann er á leið erlendis í nám og leikur vart fleiri en tvo leiki í viðbót.
„Það þolir ekkert lið svona endalaust,“ segir Heimir. Leikmenn úr yngri flokkum félagsins hafa verið kallaðir inn í aðalliðið í staðinn en álagið á þeim hefur verið mikið. Hemir segir óvíst að annar flokkurinn klári sitt mót.
Þá er ótalið að lítið hefur farið fyrir stuðningsmannahópnum Elítunni í sumar sem hélt uppi stemmningunni á Eskifjarðarvelli í fyrra. Ekkert heyrist í áhorfendum heldur er á vellinum hægt að hlusta á fossanið og hróp leikmanna og þjálfara. Flest önnur lið í 1. deild karla eru með vel skipulögð og öflug stuðningslið sem gera heimavellina óárennilega og efla baráttuanda sinna liða á útivelli. Eigi Fjarðabyggð að ná árangri verður Eskifjarðarvöllur að verða að ljónagryfju, ekki kettlingakassa.