Austurland sigurvegari Stockholm Cup

Lið Austurlands, samstarfs Hattar og Fjarðabyggðar, í þriðja flokki kvenna fór með sigur af hólmi í knattspyrnumótinu Stockholm Cup um helgina. Karlaliðið vann B-úrslit en bæði lið fóru taplaus í gegnum keppnina.

„Höttur hefur annað hvert ár farið á Barcelona Cup. Í fyrra var því aflýst vegna Covid og aftur í ár, svo við ákváðum að prófa annað mót. Okkur bauðst þetta mót og við höfum verið rosalega ánægð með umgjörðina,“ segir Sigrún Hólm Þorleifsdóttir, einn af sex fararstjórum ferðanna.

Þeir héldu líkt og leikmennirnir 34 með þjálfaranum Halldóri Bjarneyjarsyni suður til Reykjavíkur síðasta mánudag til að fljúga árla morguninn eftir út til Stokkhólms. Á miðvikudegi fengu liðin að æfa á keppnissvæðinu í Enskede en á fimmtudag byrjaði keppnin sjálf.

Tíu lið voru skráð til keppni í flokki 16-17 ára stelpna og var þeim skipt í tvo flokka. Austfirðingarnir eru reyndar 15-16 og spiluðu því upp fyrir sig. Stúlknaliðið byrjaði á að vinna Vallentuna 3-0, gerði síðan markalaus jafntefli við Bollstanäs og Lidingö áður en liðið vann Enskede 1-0.

Það fór í undanúrslit eftir að hafa orðið í öðru sæti riðilsins á eftir Lidingö. Í undanúrslitum vann liðið Vesterås 4-1 áður en aftur var komið að Lidingö í úrslitum. Leikurinn sjálfur endaði 0-0 en Austurland vann 3-0 eftir vítaspyrnukeppni þar sem Embla Fönn Jónsdóttir varði tvær spyrnur Svíanna.

Strákamegin voru 18 lið. Austurland byrjaði á 3-0 sigri gegn Vendelsö og 6-0 sigri á Bagarmossen áður en þeir gerði 2-2 jafntefli við Reymersholms, sem jafnaði undir lokin. Sá leikur var dýrkeyptur því Reymersholms fór í A-úrslit, þar sem léku efstu lið riðlanna fjögurra, meðan Austurland fór í B-úrslitin milli liðanna í öðru sæti á markahlutfalli, eftir að hafa unnið Vasalunds 3-0. Í undanúrslitum vann liðið Hammarby 2-1 og síðan Enskede 4-1.

Á milli leikja hefur Stokkhólmur verið skoðaður, farið í tívolíið og go-kart auk þess sem farið var á heimaleik hjá Hammarby í sænsku úrvalsdeilinni.

Austfirski hópurinn er nú á heimleið frá Stokkhólmi. Eftir lendingu í Keflavík verður keyrt austur með rútu og komið heim um miðja nótt. „Þetta eru öflugir krakkar,“ segir Sigrún að lokum.

Myndir: Aðsendar

stockholm cup strakar2 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.