Birna Jóna heldur áfram að bæta Íslandsmet
Birna Jóna Sverrisdóttir, sleggjukastari úr Hetti, tvíbætti nýverið Íslandsmet sitt með 4 kg sleggju í flokki 15 ára stúlkna.Birna Jóna, sem æfir undir handleiðslu Bergs Inga Péturssonar kastþjálfara á höfuðborgarsvæðinu, bætti metin á móti sem sett voru upp fyrir hana í tilefni þess að hún fór suður til að æfa.
Á fyrra mótinu kastaði hún 42,44 metra en því seinna 42,66 metra. Þá átti hún einnig kast upp á 44,65 metra. Meðal þeirra sem kepptu á móti henni voru bræður hennar, Atli Geir og Daði Fannar, en þeir eiga báðir afreksferil í kastgreinum.
Birna eignaði sér aldursflokkametið með 4 kg sleggjunni um miðjan ágúst þegar hún kastaði 42,07 metra á seinni hluta frjálsíþróttamóts Sumarhátíðar UÍA. Hennar besti árangur áður var 41,06 á Meistarmóti Íslands í lok júní. Sá árangur varð meðal annars til þess að hún fór á Ólympíuleika æskunnar í lok júlí.
Birna Jóna byrjaði að kasta 4 kg sleggjunni í lok október í fyrra. Þá tók hún þátt í þriggja móta röð sem haldið var innan einnar viku undir merkjum ÍR. Þar byrjaði hún á að kasta 34,11 metra en endaði á 36,10. Framfarir hennar síðastliðið ár hafa því verið miklar.
Mynd: FRÍ